Fjórðungi minna af úrgangi barst til Sorpu

25.03.2020 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmlega fjórðungi minna af úrgangi barst til Sorpu fyrstu tvo mánuði þessa árs, miðað við sama tímabil í fyrra. Í tilkynningu frá Sorpu segir að ástandið í þjóðfélaginu endurspeglist að einhverju leyti í ruslinu og að samdráttur í úrgangi sé vísbending um að hægt hafi á hjólum atvinnulífsins. Heildarmagn úrgangs fyrstu tvo mánuði þessa ár var 27 prósentum minna en á sama tíma í fyrra.

Félagsmenn Eflingar, sem starfa við sorphirðu í borginni, voru í verkfalli fyrr á árinu og segir í tilkynningunni að áhrifin hafi verið augljós. Minna barst af blönduðum úrgangi, pappírsefnum og plasti í móttökustöðina í Gufunesi. Fólk nýtti sér grenndargáma í meira mæli en áður meðan á verkfallinu stóð og barst 19 prósent meira í þá af flokkuðum pappír, plasti og gleri. Pappírs- og plasttunnur voru ekki losaðar í Reykjavík meðan verkfallið stóð yfir.

Það barst ekki meira af úrgangi en áður á endurvinnslustöðvar Sorpu, sem eru sex talsins, meðan á verkfallinu stóð. Því er ekki að sjá að fólk hafi farið með úrganginn þangað í verkfallinu þegar ruslatunnur urðu yfirfullar. Það er þó tilfinning starfsmanna að meiri umferð hafi verið um endurvinnslustöðvarnar í verkfallinu.

25% minna sett í nytjagáma

Svo virðist vera sem fólk geri minna af því að endurnýja húsbúnað sinn nú en á sama tíma í fyrra. Um fjórðungi minna barst í nytjagáma Góða hirðisins á fyrstu tveimur mánuðum ársins, miðað við í fyrra. Í tilkynningu Sorpu segir að þó verði að taka tillit til þess að starfsfólk Góða hirðisins fylgist betur með gámunum en áður og leggi áherslu á að flytja ekki óseljanlega muni þaðan í Góða hriðinn. Í tilkynningu Sorpu segir að það verði áhugavert að rýna í tölurnar fyrir mars og sjá hver áhrifin af aðgerðum vegna COVID-19 verði.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi