Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórði orkupakkinn á leiðinni

11.04.2019 - 16:28
Mynd: EU / EU
Á sama tíma og Íslendingar takast á um þriðja orkupakkann vinnur Evrópusambandið að því að innleiða fjórða orkupakkann. Í honum er markið sett á að uppfylla markmið Parísarasamkomulagsins í loftlagsmálum þar sem megináherslan verður lögð á að auka græna orku og orkunýtingu og að draga markvisst úr orkunotkun. Ekki liggur fyrir hvenær þessi nýi pakki verður innleiddur hér á landi.

Þriðji orkupakkinn bráðum úreltur?

Þegar EFTA-löndin, Ísland, Noregur og Liechtenstein voru að semja við Evrópusambandið um innleiðingu þriðja orkupakkans, sem nú er deilt um á Alþingi, var þegar hafinn undirbúningur að fjórða orkupakkanum, sem hefur gengið undir nafninu Vetrarpakkinn eða Hrein orka fyrir alla Evrópubúa. Í maí 2017 samþykkti sameiginlega EES-nefndin að þriðji pakkinn yrði tekinn inn í EES-samninginn. Nær ári áður kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögur um breytingar á sameiginlegum orkumarkaði Evrópu sem lúta fyrst og fremst að því að styrkja stöðu endurnýjanlegrar orku og draga úr notkun jarðefnaeldssneytis með hliðsjón af lofslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins. Það má því segja að nú sé verið að innleiða tilskipun sem verður fljótlega úrelt. Stefnt er að því að nýi pakkinn taki gildi eða verði að lögum 1. janúar 2020 innan ESB og aðildarríkin verði í framhaldinu að innleiða hann eigi síðar en eftir 18 mánuði.

Andstæðingar þriðja orkupakkans í Noregi vissu af fjórða pakkanum og vildu að beðið yrði með að samþykkja þann þriðja þar til ljóst yrði hvað sá fjórði innihéldi. Reynt var að koma þessu á framfæri í gegnum Verkamannaflokkinn en ekkert varð úr þessri kröfu.

Íslensk stjórnvöld vita líka af fjórða orkupakkanum. Um svipað leyti og kallað var eftir umsögnum um þriðja pakkann var óskað eftir umsögnum um þann fjórða. Samorka var meðal þeirra sem skiluðu umsögn. Um hvað fjallar fjórði orkupakkinn? 

„ Ef við segjum það í einu orði þá fjallar hann umloftslagsmál.“

Segir Baldur Dýrfjörð, lögmaður Samorku. Í fjórða pakkanum séu í raun sett fram markmið sem miðist meðal annars við loftslagsmarkmiðin í Parísarsamkomulaginu.

Neytendur sjálfstæðir og sjálfbærir

Í Vetrarpakkanum er lögð áhersla á ýmis atriði og aðferðir til að auka veg endurnýjanlegra orkugjafa og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Athyglin beinist ekki síst að neytendum og gert er ráð fyrir að hvert heimili hafi snjalltæki eða mæla til að stýra allri orkunotkun heimilisins. Baldur segir að áhersla sé lögð á að heimilin verði sjálfbær.

 „Þá eru verið að horfa til þess að menn geti nýtt t.d. sólarsellur á þökum hjá sér. Þá geti þeir framleitt fyrir sjálfa sig og líka inn á kerfið. Það er mikil áhersla lögð á að viðskiptavinurinn verði sjálfstæður eða sjálfbær og nýti tæknina til þess. Á móti kemur að þegar þú þarft að tengjast kerfinu og fá orku þaðan er verið að tala um að nýta snjalltæknina. Að það verði svokallaðir snjallmælar í húsum þar sem hægt er að stýra verðlagningunni á vörunni, bæði á dreifingu og orkunni sjálfri í samhengi við álagið á kerfinu. Þar með er verið að hvetja viðskiptavininn til að vera sjálfstæður í vali á því hvenær hann nýtir orkuna og fá hana á sem hagstæðustu verði,“ segir Baldur.

Baldur bendir meðal annars á að stefnt sé að því að hleðslu rafbíla verði stýrt miðað verð og álag innan hvers sólarhrings.

„Og þar með værum við í raun og veru að minnka þörfina fyrir fjárfestingu í kerfinu. Við værum að nýta það betur. Þetta er eitt dæmi sem Evrópusambandið hefur lagt áherslu á. Aukin orkunýting og nýta orkuna á besta tíma,“ segir Baldur.

Mynd með færslu
 Mynd: Samorka
Baldur Dýrfjörð

Árlega dregið úr orkunotkun um 1,5%

Í Vetrarpakkanum eru sett fram ýmis markmið. Að hlutur endurnýjanlegrar orku hækki úr 25% í 55% fram til árins 2030. Reyndar hefur ESB sett sér það markmið að jarðefnaeldsneyti verði hreinlega úr sögunni 2050. Þá er stefnt að því að orkunýting aukist úr 27 af hundraði í 30. Og loks er gerð krafa um að orkunotkun minnki um eitt og hálft prósent á ári. Baldur bendir á að markmiðið sé að auka hlut grænnar orku. Hvað það varði hafi Ísland sérstöðu vegna þess að orkunotkun hér sé nánast 100% græn. Rafmagnið og heita vatnið.

 „Það breytir ekki því að það er margt í Vetrarpakkanum sem við getum horft til og hvetur okkur til að gera enn betur. Fara betur með auðlindina og nýta orkuna betur. Við getum nýtt okkur þessi markmið og eigum auðvitað að horfa til þess.  Því að þrátt fyrir að við höfum mikið af sjálfbærum auðlindum þá þýðir það ekki að við eigum ekki að fara vel með,“ segir Baldur.

Þurfa allir að kaupa snjallmæli?

En er eitthvað í fjórða orkupakkanum sem verður erfitt að innleiða hér? Verður t.d gerð krafa um að allir kaupi snjallmæli til að fylgjast og stjórna orkunotkunni? Baldur bendir á að í pakkanum sé gert ráð fyrir að það verði metið hvenær er skynsamlegt að skipta um tækni út frá kostnaði og að Samorka hafi lagt áherslu á að undanþágur verið rúmar gagnvart Íslendingum.

„Og við verðum ekki þvinguð til að taka upp tækni sem væri ekki að skila okkur árangri. En svo gerist það bara, að frá því að við skiluðum okkar umsögn 2017 og höfðum uppi þessa fyrirvara til að við séum ekki að lenda í miklum kostnaði sem er ekki sanngjarn gagnvart viðskiptavinunum, að þá hefur þessi tækni hrapað í verði og möguleikarnir aukist. Fyrirtækin okkar eru bara komin á þann stað að þau eru að undirbúa upptöku á þessari tækni. Við lögðum áherslu í umsögn okkar á að horfa til sérstöðu okkar og leyfa þessu að gerast á forsendum tækninnar og forsendum verðsins. Sem betur fer er það að rætast. Þó að við séum ekki komin á þann stað að innleiða pakkann þá erum við farinn að nýta margt sem Vetrarpakkinn gerir ráð fyrir,“ segir Baldur Dýrfjörð.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir