Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjórði maðurinn krefur ríkið um bætur

29.12.2017 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eiríkur Jónsson lagaprófessor krefur ríkið um miskabætur vegna ólögmætra athafna dómsmálaráðherra við skipun í embætti landsréttardómara. Ráðherra vék frá niðurstöðu hæfisnefndar og skipaði fjóra landsréttardómara sem ekki voru meðal fimmtán hæfustu að mati nefndarinnar. Með kröfu Eiríks hafa nú allir mennirnir krafist bóta. 

 

Eiríkur krefur ríkið um miskabætur og skaðabætur vegna fjártjóns vegna þess að laun háskólaprófessors eru lægri en landsréttardómara. Ekki fylgir upphæð kröfunni. Þá er heldur ekki tilgreindur árafjöldi fjártjónsins.

 

Tveir af mönnunum fjórum sem ekki voru skipaðir, höfðuðu mál og komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu fyrr í mánuðinum að dómsmálaráðherra hefði brotið lög með skipan landsréttardómara. Mönnunum tveimur voru dæmdar miskabætur en Hæstiréttur hafnaði skaðabótakröfu þar sem hún var ekki studd með gögnum.

Nýverið krafðist þriðji maðurinn, Jón Höskuldsson, miskabóta frá ríkinu og skaðabóta vegna fjártjóns. Jón krefst ríflega þrjátíu milljóna króna sem er mismunur á launum hans nú sem héraðsdómara og launum landsréttardómara í níu ár.

Eiríkur setur ekki fram neina fjárhæð í kröfunni sem hann gerir og send var ríkislögmanni í gær. Ljóst er að launamunur hans sem háskólaprófessors og landsréttardómara er mun meiri en hjá Jóni. Þannig verður Eiríkur af hátt í einni milljón króna á mánuði. Hann vildi ekki veita fréttastofu viðtal um málið en staðfestir að hann hafi gert kröfuna.

Jón gerir kröfu um skaðabætur vegna fjártjóns út starfsævina en dómarar eru æviráðnir. Verði það niðurstaða í máli Eiríks að gera ámóta kröfu myndi hún væntanlega hlaupa á hundruðum milljóna króna.