Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fjórar tillögur að nafni á hraunið

12.10.2015 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjórar tillögur að nafni á nýja hraunið norðan Vatnajökuls verða sendar Örnefnanefnd til umsagnar á næstu dögum. Þetta er niðurstaða nefndar sem skipuð var til að gera tillögur að nafni.

Hraunið hefur hingað til verið kallað Holuhraun, eða nýja Holuhraun. Samkvæmt nýlegum lögum um örnefni er bera sveitarstjórnir ábyrgð á að nefna ný náttúrufyrirbæri í samráði við Örnefnanefnd. Að fenginni umsögn Örnefnanefndar um tillögurnar fjórar, verður ákveðið hversu margar nafnatillögur verða sendar sveitastjórn Skútustaðahrepps sem tekur svo ákvörðun um nafn á hraunið. Gert er ráð fyrir að Örnefnanefnd taki 2-3 vikur í að veita umsögn um tillögurnar.

Síðastliðið haust þegar gosið stóð sem hæst komu fram nokkrar hugmyndir að nafni á hraunið. Þorvaldur Þórðarsson eldjfallafræðingur lagði til að hraunið skyldi nefnt Nornahraun og Tryggvi Jakobsson ritstjóri og landfræðingur hjá Námsgagnastofnun stakk upp á nöfnunum Dyngjuhrauni og Jökulsárhrauni svo dæmi séu tekin.

Fimm sitja í nafnanefndinni. Sveitarstjórn Skútustaðahreppstveir tilnefndi tvo fulltrúa, einn sat í nefndinni fyrir hönd Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, einn fyrir hönd Vatnajökulsþjóðgarðs og einn fyrir hönd nafnafræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV