Fjölskylda með 10 börn send aftur til Sómalíu

12.02.2017 - 10:35
The scene of a bomb attack on an hotel in Mogadishu, Somalia Wednesday, June 1, 2016. The attack took place on the Ambassador hotel, which is often frequented by government officials and business executives. (AP Photo/Farah Abdi Warsameh)
Ambassadorhótelið í Mogadishu eftir hryðjuverkaárás síðasta sumar. Mynd: AP
Fjölskyldu með tíu börn, sem búið hefur í Danmörku frá árinu 2013, hefur verið gert að snúa aftur til Sómalíu. Ástandið í landinu er ótryggt og hætta á að börn sé þvinguð til liðs við hryðjuverkasveitir, líkt og Útlendingastofnun Danmerkur bendir sjálf á. Dvalarleyfi um 800 Sómala í Danmerkur eru til endurskoðunar.

Fjölskyldan, með börn á aldrinum eins til sautján ára, bjó í raðhúsi í Solröd, skammt utan við Kaupmannahöfn. Börnin tala dönsku, ganga í skóla og taka þátt í íþróttum með jafnöldrum sínum. Síðasta haust var fjölskyldunni tilkynnt að tímabundið dvalarleyfi hennar yrði ekki framlengt. Fólkinu bæri að flytja út af heimili sínu innan mánaðar og hverfa aftur til Mogadishu, höfuðborgar Sómalíu. Daginn eftir var fólkið horfið á brott og hefur ekki spurst til þess síðan, að því er fram kemur í umfjöllun á vef Politiken í Danmörku. Óvíst er hvort fjölskyldan sé nú í Sómalíu, eða hún hafist sé í felum í Danmörku eða einhverju öðru landi.

Líkt og Politiken bendir á, er ekki friður í Sómalíu. Í skýrslum Útlendingastofnunar Danmerkur um ástandið í Sómalíu, segir meðal annars að börnum sé mikil hætta búin í landinu. Til að mynda kunni þau að vera þvinguð til liðs við uppreisnar- og hryðjuverkasveitir Al-Shabaab. Forstöðumaður Barnaheilla í Danmörku segir ekki víst að foreldrar barna sem búa í Mogadishu geti varið börn sín fyrir ofbeldi og annarri hættu. 

Um 800 Sómalir eru með tímabundið dvalarleyfi í Danmörku. Útlendingastofnun Danmerkur er nú með öll þessi leyfi til endurskoðunar. Meðal annars dvalarleyfi Abdi Assis Osman, sem Politiken ræðir við í dag. Hann býr og starfar í Herlev, er þriggja barna faðir og hefur ekki komið til Sómalíu í 20 ár. Þegar hefur verið ákveðið að afturkalla fjögur dvalarleyfi með þeim rökum að Mogadishu-borg sé nú orðin það örugg að hægt sé að vísa fólki þangað án þess að það brjóti í bága við mannréttindasáttmála.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi