Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjölmörg álitamál um RÚV

29.10.2015 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfshópur sem var skipaður til að skoða og greina rekstur Ríkisútvarpsins telur að nokkur mikilvæg álitamál standi eftir að lokinni úttektinni. Þar á meðal sé spurning hvort ohf.-rekstrarformið sé heppilegt, og hvort RÚV eigi að vera á auglýsingamarkaði.

Blaðamannafundur þar sem skýrsla starfshópsins var kynnt, var haldinn í dag. Hópnum var falið að varpa ljósi á ástæður þess rekstrarvanda sem Ríkisútvarpið glímir við. 

Að mati hópsins komu nokkur álitamál fram við gerð skýrslunnar. Hópurinn spyr meðal annars hvort ohf.-rekstrarformið sé heppilegt fyrir starfsemi RÚV þar sem reynslan sýni að félagið sé ekki rekið með takmarkaðri ábyrgð þegar ávallt sé gert ráð fyrir að ríkissjóður rétti af fjárhag félagsins.

Þá er spurt hvort RÚV eigi að vera á auglýsingamarkaði og hvort RÚV sé best til þess fallið að ná fram markmiðum ríkisins sem snúa að íslenskri menningu, tungu og lýðræðisumræðu.

Þá er bent á að innan við 60% af heildargjöldum RÚV fari í beinan kostnað við innlenda dagskrá og spurt hvort hægt sé að fá betri nýtingu á fjárveitingar ríkissjóðs. 

Í skýrslunni segir að nefndin hafi haldið 20 fundi og aflað gagna úr ýmsum áttum. Auk þess hafi nefndin rætt við fjölmarga aðila. Þeir eru eftirfarandi: Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, Anna Bjarney Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri rekstrar, fjármála og tæknisviðs RÚV, Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri RÚV, Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, Steinunn Þórhallsdóttir, verkefnastjóri RÚV, Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, Bjarni Kristjánsson, fyrrverandi fjármálastjóri RÚV, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 Miðla, Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðlunar og markaða Símans, Gísli Magnússon, skrifstofustjóri, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Jón Vilberg Guðjónsson, skrifstofustjóri, mennta-og menningarmálaráðuneyti, Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi, mennta-og menningarmálaráðuneyti og Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastóri Fjölmiðlanefndar.

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér til hægri.