Fjölmennustu og ofbeldisfyllstu mótmælin um langt skeið

16.11.2019 - 23:35
epa08001315 Masked protesters clash with riot police during the 'Gilets Jaunes' (Yellow Vests)  'Act 53' demonstration (the 53rd consecutive national protest on a Saturday) in Paris, France, 16 November 2019.  The so-called 'gilets jaunes' (yellow vests) call for a massive demonstration in Paris to mark the one-year anniversary of this protest movement.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nær 150 voru handtekin í París í dag, þegar mótmæli gulvestunga á árs afmæli hreyfingarinnar þróuðust út í átök og óeirðir sumstaðar í borginni og lögregla greip til táragass og háþrýstidælna. Blásið var til mótmæla um land allt í dag til að minnast þess að á morgun er rétt ár frá fyrstu mótmælunum. Þótt mótmælin í dag hafi ekki verið jafn fjölmenn og þau voru þegar mest var síðastliðinn vetur og fram eftir vori, þá hlýddu þúsundir kallinu í flestum stærstu borgum landsins.

Ofbeldisfyllstu mótmælin um margra mánaða skeið

Eins og oftast áður lét mikill meirihluti þátttakenda nægja að mótmæla kröftuglega en friðsamlega.  En eins og oft áður létu hópar grímuklæddra óeirðaseggja líka til sín taka og hefur ekki verið jafn mikið um ofbeldis- og skemmdarverk á laugardagsmótmælum gulu vestanna mánuðum saman.

Óeirðaseggir í París kveiktu elda á götum úti, lögðu eld að bílum og ruslatunnum, unnu skemmdarverk á byggingum - og þá einkum bönkum - og grýttu lögregluna. Óeirðalögregla brást við af hörku og beitti hvorutveggja táragasi og háþrýstidælum. 147 voru handtekin í höfuðborginni áður en yfir lauk. Lögreglu og mótmælendum lenti saman í fleiri borgum, svo sem Bordeaux, Nantes og Lyon, en þó ekkert á við það sem á gekk í París.

Aftur mótmælt á sunnudag

Laugardagsmótmæli gulvestunga byrjuðu 17. nóvember í fyrra, þegar þúsundir mótmæltu hækkandi eldsneytisverði. Þau þróuðust svo fljótt út í almennari mótmæli gegn óviðunandi ástandi á fleiri sviðum samfélagsins, svo sem lágum launum og litlum kaupmætti, háum framfærslukostnaði og vaxandi misskiptingu. Hundruð þúsunda tóku þátt í mótmælunum þegar mest var en í sumar lognuðust þau nánast út af og hafa enn ekki náð fyrra flugi. Boðað hefur verið til aukamótmæla á morgun, sunnudag, í tilefni árs afmælisins. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi