Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölmenning: Frá þjóðfánum til kósíkvölda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fjölmenning: Frá þjóðfánum til kósíkvölda

27.02.2019 - 07:00

Höfundar

Flestum krökkum finnst gaman að hafa kósíkvöld heima. Þetta var meðal þess sem fjölmenningarverkefni barna í leikskóla nokkrum í Reykjavík leiddi í ljós. Fjölmenningarstarf í leikskólum hefur tekið breytingum í áranna rás og áhersla á þjóðmenningu og þjóðfána hefur vikið fyrir áherslu á persónulega menningu hvers barns, menningu sem ekki tengist endilega uppruna fjölskyldunnar. 

Mikill munur á milli leikskóla

Síðastliðin ár og áratugi hefur samsetning barnahópsins í leikskólum Reykjavíkurborgar breyst. Um fimmtungur leikskólabarna er nú af erlendum uppruna. Munurinn milli leikskóla getur verið mjög mikill. Þannig hafa 82% nemenda í leikskólanum Ösp í Breiðholti erlendan bakgrunn en einungis um 10% nemenda í leikskólanum Rauðhóli í Norðlingaholti. Á flestum leikskólum er hlutfall barna af erlendum uppruna á milli 20 og 40%. „Þeir leikskólar sem hafa hátt hlutfall barna af erlendum uppruna hafa gjörbreytt starfsháttum sínum og eru að nota aðferðir sem gagnast öllum börnum, öll börnin græða á því. Þeir eru til dæmis með myndrænt skipulag, nota brúður og muni í sögustundum og samskiptabækur. Það eru margir leikskólar sem eru að vinna frábært starf.“ Þetta segir Saga Stephensen, verkefnastjóri og ráðgjafi vegna fjölmenningarlegs leikskólastarfs, hjá Reykjavíkurborg. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Á leikskólalóð.

Allir leikskólar fjölmenningarleikskólar

Sums staðar þar sem hlutfall barna af erlendum uppruna er hátt hafi skólarnir einfaldlega þurft að laga starfið að nýjum veruleika. Í öðrum skólum, þar sem hlutfallið er lægra, veltur það kannski frekar á áhuga og þekkingu kennara hversu mikil áhersla er á fjölmenningu og fjölbreytta kennsluhætti. Allir leikskólar borgarinnar eiga þó, óháð hlutföllum, að vera fjölmenningarleikskólar og starfa eftir stefnu borgarinnar, Heimurinn er hér. 

Tuttugu tungumál í skólanum

Spegillinn ræddi við Sögu um fjölmenningarlegt leikskólastarf fyrr og nú og þær áskoranir sem leikskólakennarar standa frammi fyrir. Saga vann sjálf í leikskóla í fimm ár. Þar var unnið markvisst með heimamenningu barnanna og þau tuttugu tungumál sem voru töluð í skólanum. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Töfrandi tungumál.

Saga nefnir til dæmis þróunarverkefnið Töfrandi tungumál. Það snýst ekki um að kenna öll þessi tuttugu tungumál heldur miðar það að því að sýna börnunum að tungumál þeirra sé virt og velkomið í leikskólanum. „Til dæmis vorum við með tungumál vikunnar þá eru öll tungumál barnanna tekin fyrir og hvert tungumál tekið fyrir viku í senn. Þetta er allt í samstarfi við foreldra. Þetta verður að vera í gegnum þá. Við bjóðum þá góðan daginn, kennum nokkur orð, fáum leiðbeiningar frá foreldrum um hvernig við berum þau fram. Svo bjóðum við foreldrum að koma í leikskólann og segja sögu eða syngja. Mér fannst svo magnað að sjá hvað foreldrar voru ánægðir með þetta og það vildu allir taka þátt á einhvern hátt.“

Þannig hafi sumir þýtt heilu bækurnar úr móðurmáli sínu á íslensku eða ensku svo kennarar gætu notað þær í samverustundum með börnunum.

Gott fyrir sjálfsmyndina

Saga segir að með þessu sé því miðlað að fjöltyngi sé styrkur. „Maður bara sá hvað þetta hafði mikil áhrif á sjálfsmynd barnanna, þau alveg ljómuðu í þessum samverustundum. Þá var það líka undir þeim komið hvort þau vildu koma fram og segja frá því að þau töluðu þetta mál, við vorum ekki að benda á börnin heldur sögðum bara þetta er tungumál vikunnar, við erum núna að vinna með það, sum koma þá og segjast kunna að telja á þessu máli eða vilja tala við hina krakkana, öðrum nægir bara að brosa.“

 Börnin sem eiga íslensku að móðurmáli sýndu verkefninu líka mikinn áhuga, þetta opnaði þeim nýjar gáttir. Þau ákváðu sum að byrja að læra pólsku eða önnur tungumál, þýddu orðalista heima með hjálp foreldra og spurðu foreldra sína út í það hvaða tungumál þeir töluðu. 

Minna um að verið sé að merkja börnin

Í fjölmenningarleikskólum er líka unnið með heimamenningu barnanna. En hvað felur það í sér, þegar flest börnin eru fædd og uppalin á Íslandi og hafa jafnvel aldrei komið til heimalands foreldranna? „Heimamenning, eins og ég lít á hana, er persónuleg menning. Tveir einstaklingar frá Íslandi geta verið með mjög ólíka heimamenningu en það er samt líka margt sem sameinar. Það var til dæmis eitt verkefni sem við gerðum í leikskólanum þar sem ég vann, Miðborg. Þá fóru börnin með karton heim og máttu setja fram á þann hátt sem þau vildu, með teikningum, texta eða myndum, hvað þeim fyndist skemmtilegt að gera heima. Þetta var rosalega skemmtilegt því það var svo margt sem sameinaði, svo var annað sem þeim fannst mjög skemmtilegt að sýna, sum voru með myndir af afa og ömmu og mjög mörg með myndir frá kósíkvöldi. Það var ekki áhersla á þjóðmenningu heldur það sem börnin vilja sýna, það getur verið að það sé þjóðlegt en þá er það bara þeirra að ákveða.“ 

Nú hafa fjölmenningarstefnur og áhersla á fjölmenningu verið að ryðja sér til rúms síðastliðin tíu til tuttugu ár. Hefur þessi skilningur alltaf verið lagður í heimamenningu eða var einhvern tímann verið að sýna myndir frá einhverju mjög dæmigerðu tengdu Póllandi eða Filippseyjum, þjóðbúningum og þess háttar? Saga segir þetta hafa breyst mikið. „Bara á þeim fimm árum sem ég var að vinna í leikskóla fann ég mikla hugarfarsbreytingu.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Saga Stephensen er nýlega tekin við starfi verkefnastjóra fjölmenningar í leikskólum hjá Reykjavíkurborg.

Í dag er sem sagt lögð áhersla á fjölmenningu í víðum skilningi. Fjölmenningu sem varðar alla í samfélaginu, ekki bara þá sem eru af erlendum uppruna. Saga segir að áður hafi verið lögð meiri áhersla á þjóðmenningu. „Að hengja upp fána og merkja börnin í rauninni og það var ekki endilega þannig sem þau skilgreindu sig, þau kannski líta á sig sem Íslendinga en það var allt í einu kominn fáni eða þau voru beðin um að koma með eitthvað í leikskólann sem tengist þeirra landi, eða sem sagt heimalandi foreldranna, sem þau tengja ekki endilega við. Þau geta gert það en þá er það þeirra að ákveða það, finnst mér.“ 

Þannig að þetta er kannski svolítið gamli tíminn, að segja þú átt þennan fána og þess háttar?

„Já, og þetta með fánana er svolítið erfitt viðfangsefni, það getur verið skemmtilegt að vinna með fánana en þetta getur líka verið viðkvæmt mál,“ segir Saga. 

Börn séu oft áhugasöm um fána og að það sé hægt að vinna skemmtileg verkefni með þá en fánar geti líka verið pólitískir og því sé mikilvægt, vilji skólar vinna með eða hengja upp fána, að gera það í samstarfi við foreldrana og börnin. Þá telur hún ekki æskilegt að merkja fánana ákveðnum börnum. 

Eigi að geta staðið jafnfætis við upphaf grunnskóla

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Svalur jólasveinn sendir kveðju á pólsku, ensku og íslensku.

Sem hópur standa börn með annað móðurmál en íslensku höllum fæti í skólakerfinu, sum hafa ekki náð nógu góðum tökum á íslensku til að skilja flókna texta og dæmi eru um að börn nái ekki góðum tökum á neinu tungumáli. 

Í leikskólanum er oft lagður grunnur að íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál. Í stefnu borgarinnar er lögð áhersla á virkt tvítyngi. Það þýðir að íslenska á ekki að koma í staðinn fyrir móðurmál barnsins heldur er hún viðbót. Lykillinn að því að ná færni í íslensku sé góð færni í móðurmálinu. Mörg börn eru tvítyngd en Spegillinn hefur heyrt að það fjölgi í hópi barna sem eru fjöltyngd, tala fleiri en tvö tungumál, í stefnu borgarinnar er þó fyrst og fremst fjallað um tvítyngi. 

Í síðustu viku ræddi Spegillinn við brúarsmiði hjá Miðju máls og læsis, um hvernig foreldrar geta stutt við virkt fjöl- eða tvítyngi barna sinna.

Mynd með færslu
 Mynd:
Magdalena og Kriselle, brúarsmiðir hjá Miðju máls og læsis, þekkingarteymi Reykjavíkurborgar.

En hvað er hægt að gera í leikskólanum til að styðja við tungumálafærni þeirra? Saga segir að mikil áhersla sé lögð á að þjálfa börnin í íslensku. Það er síður mælt með því að þau séu tekin út úr hópnum til að fara í sérstaka íslenskuþjálfun. Frekar sé horft til þess að styðja börnin í leik inni á deild, setja orð á athafnir og víkka út orðaforða þeirra. Forveri hennar þróaði nýtt efni sem heitir Gefðu tíu og felur í sér að hver starfsmaður gefi sér tíu mínútur á dag til að ræða við ákveðið barn. „Þá er kannski verið að leggja áherslu á eitt eða tvö börn í eina viku eða tvær vikur. Ef það eru fjórir eða fimm starfsmenn á deild eru þetta fjörutíu til fimmtíu mínútur á dag í málörvun. Þá er verið að leggja áherslu á að tala um það sem er í umhverfi barnsins,“ segir Saga.  

Hún segir að margt sé gert til að tryggja að börnin nái góðum tökum bæði á íslensku og móðurmáli sínu en það þurfí að gera betur. Í nýrri menntastefnu borgarinnar sé lögð áhersla á þetta. „Til dæmis þarf að auka færni starfsmanna til að styðja við málþroska og lestrarfærni barna.“ 

Er hægt að tryggja þeim nógu mikla örvun og þekkingu í íslensku í leikskólanum til að þau komi inn í grunnskólann og standi jafnfætis börnum sem hafa íslensku að móðurmáli? 

„Já,“ segir Saga. „Ég held það sé bara vel hægt. Þetta gengur vel á mörgum stöðum, þá er einmitt samstarf á milli leikskóla og grunnskóla og fylgst með því hvernig börnunum gengur í skólanum.“ 

Nota myndabækur og Google translate

Samskipti við foreldra geta verið flóknari þegar foreldrar og starfsmenn leikskólans tala ekki sama tungumál. Skólarnir eiga, samkvæmt stefnu borgarinnar, að leggja sig fram við að ná til foreldra allra barna, líka þeirra sem ekki tala íslensku eða ensku. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í anddyri leikskóla.

Saga segir að þetta sé að stórum hluta spurning um viðhorf, það eigi raunar við um alla þessa fjölmenningarvinnu. „Það góða er að almennt eru jákvæð viðhorf en þetta krefst þess að fólk sé hugmyndaríkt og lausnamiðað og setji sig í þessi spor, hvernig myndi mér líða ef ég væri einhvers staðar þar sem ég skildi ekki málið? Ég myndi samt vilja fá að vita hvernig barninu mínu líður í leikskólanum,“ segir Saga.  

Þegar mikið liggur við, svo sem foreldraviðtal eða það þarf að koma einhverju mikilvægu til skila, á að kalla til túlk en í daglegu starfi má nota myndabækur til miðla upplýsingum, teikna, biðja aðra starfsmenn leikskólans sem kunna tungumál foreldra að aðstoða við samskipti, nú eða grípa til þýðingarvélarinnar Google translate. 

Saga segir að foreldrar séu mismunandi og sækist mismikið eftir því að ræða við starfsfólk leikskóla. „Það er bara hlutverk leikskólakennara að fara til allra foreldra og sýna að þeir hafi áhuga á að tala við þá. Líka bara upp á sjálfsmynd barnsins, það er mjög mikilvægt að það sjái að það sé talað við foreldra þess.“ 

Er alltaf tími á undirmönnuðum leikskólum og þegar það er mikið að gera til þess að sinna þessum samskiptum? 

„Það er reynt eftir bestu getu, auðvitað eru áskoranir og það þarf að fjölga fagmenntuðu fólki í leikskólunum og allt það en það er mjög margt sem er vel gert og alltaf verið að leita leiða til þess að gera starfið betra.“ 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Það þarf tvö þorp til að ala upp tvítyngt barn

Menntamál

Hafa ekki íslenskukunnáttu í samræmi við aldur

Austurland

Vond staða barna án kennslu í eigin móðurmáli

Vestfirðir

Vill skýra stefnu í kennslu tvítyngdra barna