Saga nefnir til dæmis þróunarverkefnið Töfrandi tungumál. Það snýst ekki um að kenna öll þessi tuttugu tungumál heldur miðar það að því að sýna börnunum að tungumál þeirra sé virt og velkomið í leikskólanum. „Til dæmis vorum við með tungumál vikunnar þá eru öll tungumál barnanna tekin fyrir og hvert tungumál tekið fyrir viku í senn. Þetta er allt í samstarfi við foreldra. Þetta verður að vera í gegnum þá. Við bjóðum þá góðan daginn, kennum nokkur orð, fáum leiðbeiningar frá foreldrum um hvernig við berum þau fram. Svo bjóðum við foreldrum að koma í leikskólann og segja sögu eða syngja. Mér fannst svo magnað að sjá hvað foreldrar voru ánægðir með þetta og það vildu allir taka þátt á einhvern hátt.“
Þannig hafi sumir þýtt heilu bækurnar úr móðurmáli sínu á íslensku eða ensku svo kennarar gætu notað þær í samverustundum með börnunum.
Gott fyrir sjálfsmyndina
Saga segir að með þessu sé því miðlað að fjöltyngi sé styrkur. „Maður bara sá hvað þetta hafði mikil áhrif á sjálfsmynd barnanna, þau alveg ljómuðu í þessum samverustundum. Þá var það líka undir þeim komið hvort þau vildu koma fram og segja frá því að þau töluðu þetta mál, við vorum ekki að benda á börnin heldur sögðum bara þetta er tungumál vikunnar, við erum núna að vinna með það, sum koma þá og segjast kunna að telja á þessu máli eða vilja tala við hina krakkana, öðrum nægir bara að brosa.“
Börnin sem eiga íslensku að móðurmáli sýndu verkefninu líka mikinn áhuga, þetta opnaði þeim nýjar gáttir. Þau ákváðu sum að byrja að læra pólsku eða önnur tungumál, þýddu orðalista heima með hjálp foreldra og spurðu foreldra sína út í það hvaða tungumál þeir töluðu.
Minna um að verið sé að merkja börnin
Í fjölmenningarleikskólum er líka unnið með heimamenningu barnanna. En hvað felur það í sér, þegar flest börnin eru fædd og uppalin á Íslandi og hafa jafnvel aldrei komið til heimalands foreldranna? „Heimamenning, eins og ég lít á hana, er persónuleg menning. Tveir einstaklingar frá Íslandi geta verið með mjög ólíka heimamenningu en það er samt líka margt sem sameinar. Það var til dæmis eitt verkefni sem við gerðum í leikskólanum þar sem ég vann, Miðborg. Þá fóru börnin með karton heim og máttu setja fram á þann hátt sem þau vildu, með teikningum, texta eða myndum, hvað þeim fyndist skemmtilegt að gera heima. Þetta var rosalega skemmtilegt því það var svo margt sem sameinaði, svo var annað sem þeim fannst mjög skemmtilegt að sýna, sum voru með myndir af afa og ömmu og mjög mörg með myndir frá kósíkvöldi. Það var ekki áhersla á þjóðmenningu heldur það sem börnin vilja sýna, það getur verið að það sé þjóðlegt en þá er það bara þeirra að ákveða.“
Nú hafa fjölmenningarstefnur og áhersla á fjölmenningu verið að ryðja sér til rúms síðastliðin tíu til tuttugu ár. Hefur þessi skilningur alltaf verið lagður í heimamenningu eða var einhvern tímann verið að sýna myndir frá einhverju mjög dæmigerðu tengdu Póllandi eða Filippseyjum, þjóðbúningum og þess háttar? Saga segir þetta hafa breyst mikið. „Bara á þeim fimm árum sem ég var að vinna í leikskóla fann ég mikla hugarfarsbreytingu.“