Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjölmenni á fótboltamótum á Akureyri

Fjölmenni á fótboltamótum á Akureyri

06.07.2018 - 22:26
Fjöldi gesta af landinu öllu er kominn til að spila, og fylgjast með fótbolta á Akureyri.

Tvö knattspyrnumót fara fram um helgina. Annars vegar keppa ungir og efnilegir leikmenn á N1-mótinu, og hins vegar knattspyrnumenn og -konur sem komin eru af léttasta skeiði, á Pollamótinu

Mótstjórn N1-mótsins telur að nærri sex þúsund manns séu í bænum vegna mótsins, leikmenn og aðstandendur liða. 188 lið taka þátt. „Þetta er alltaf jafn gaman og allir jafn ánægðir, sérstaklega þegar sólin fer að skína eins og í dag þá gengur þetta bara eins og í sögu," segir Siguróli Sigurðsson sem er í mótsstjórn.

Á Pollamótinu taka 47 lið þátt í ár, mótið hófst í morgun og fer vel af stað samkvæmt forsvarsmönnum. 

Það er fleira en fótbolti sem kemst að hjá þátttakendum. Leikmenn liðsins Ginola tóku sig saman eftir mótið í fyrra og söfnuðu rúmri milljón til styrktar MND-félagsins og afhentu hana í dag á Þórssvæðinu.

„Góðvinur hópsins og lærifaðir margra í hópnum veiktist því miður af MND sjúkdómnum þannig að við ákváðum að fara á stúfana við nokkur fyrirtæki hér í bæ og leggja okkar af mörkum," segir Sigurður Sigurðsson leikmaður Ginola.