Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölmenn fjólublá mótmæli

14.06.2019 - 18:15
Mynd: EPA-EFE / KEYSTONE
Hundruð þúsunda svissneskra kvenna lögðu niður störf um miðjan dag í dag til að mótmæla ójafnrétti kynjanna í landinu. Launamunur er enn um 20 prósent.

Svisslendingar voru síðasta Evrópuþjóðin til að tryggja konum kosningarétt. Það var árið 1971. Árið 1991 héldu svissneskar konur upp á það að tíu ár voru þá liðin frá því að jafnrétti karla og kvenna átti að vera tryggt með breytingum á stjórnarskrá landsins. 

Þá voru einungis liðin sex ár frá því að konur þurftu ekki lengur leyfi eiginmanna sinna til að vinna eða opna bankareikninga. Um hálf milljón kvenna lagði niður störf um miðjan dag og komu saman í kröfugöngum víða um landið. 

Þær mótmæltu því meðal annars að engar konur voru í ríkisstjórn landsins og enginn réttur til fæðingarorlofs bundinn í lög.

epa07647531 A woman takes part in a nationwide women's strike in front of University Hospitals in Geneva (HUG), Switzerland, 14 June 2019. The strike day intends to highlight, among others, unequal wages, pressures on part-time employees, the burden of household work and sexual violence.  EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE

Hvort tveggja hefur breyst, en nú eru kröfurnar aðrar. Launamunur kynjanna mælist um 20% í Sviss og þó að konur hafi rétt til fæðingarorlofs er dagvistun barna af skornum skammti og dýr. 

Og því, 28 árum síðar, streymdu konur aftur út á götur með kröfuspjöld að vopni undir merkjum #frauenstreik.

 

Fjólublátt er einkennislitur átaksins og mátti sjá stuðningsfólk í röðum þingmanna í svissneska þinginu í dag. 

En krafa mótmælenda er skýr, að í Sviss, sem lengi hefur vermt efstu sæti lista yfir ríkustu þjóðir heims, verði jafnrétti tryggt og allt gert til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi.