Fjölmargar hugmyndir um framtíð Sigurhæða

16.10.2019 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Fyrirhugaðri sölu Akureyrarbæjar á Sigurhæðum, húsi Matthíasar Jochumssonar hefur verið frestað meðan bæjaryfirvöld kanna nýjar hugmyndir um notkun þess. Fjölmargar hugmyndir hafa komið fram eftir að Facebook-hópur um framtíð hússins var stofnaður.

Hafa ítrekað óskað eftir aðkomu ríkisins

Matthías Jochumsson lét byggja Sigurhæðir árið 1903 og bjó þar og starfaði. Undanfarin ár hefur Akureyrarbær átt í vandræðum með að finna húsinu hlutverk. Þá hefur bærinn ítrekað óskað eftir því að ríkið komi að rekstri þess.  

Valgerður Bjarnadóttir er ein þeirra sem hafa látið sig málefni hússins varða. Eftir að fréttir bárust af sölunni stofnaði hún hóp á Facebook þar sem fólk ræddi framtíð þess. Valgerður segir fjölmargar hugmyndir um notkun hússins hafa sprottið fram. Meðal annars að það yrði tónleikahús og aðstaða fyrir ungt listafólk. 

„Viðbrögðin komu mér dálítið á óvart, ekki bara á Facebook heldur voru svo margir bara sem höfuð samband við mig. Bara hringdu, sendu skilaboð, svona allskonar fólk, víða að úr samfélaginu sem að fannst þetta hið versta mál. Það er ótal hugmyndir. Ég er alveg sannfærð um það að þetta hús er hægt að fylla af lífi,“ segir Valgerður.

„Hreint og beint ósanngjarnt“

Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar Akureyrarstofu segir bæjaryfirvöld hafa ákveðið að slá sölunni á frest á meðan hugmyndir um notkun hússins verði kannaðar

„Við rekum auk Sigurhæða um Matthías Jochumsson sem samdi þjóðsöng okkar Íslendinga. Þá erum við líka að reka Nonnahús, Jóns Sveinssonar og síðan Davíðshús Stefánssonar frá Fagraskógi og okkur finnst tiltölulega ósanngjarnt að við fáum ekki stuðning í þennan rekstur líkt og önnur skáldahús í landinu. Okkur finnst það hreint og beint ósanngjarnt,“ segir Hilda. 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi