Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fjölmargar barnabeinagrindur hafa fundist

12.07.2015 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Á Hofstöðum í Mývatnssveit stendur yfir umfangsmikill uppgröftur á einum stærsta kirkjugarði frá þjóðveldisöld. Þegar hafa fundist um 150 beinagrindur í kirkjugarðinum en óvanalega margar beinagrindur af börnum hafa varðveist þar vel.

Rannsóknum á kirkjugarðinum lýkur í ár en þær hafa staðið yfir í 25 ár. Af þeim 150 beinagrindum, sem búið að grafa upp, eru tæplega 80 af börnum, þar af mikill meirihluti af kornabörnum. Almennt séð hafa beinin varðveist mjög vel.

„Það er mjög óalgengt að vera með svona stórt safn af börnum,“ segir Hildur Gestsdóttir fornleifafræðingur. „Svona fræðilega séð þá er það mjög áhugavert. Það er saga sem vantar gjarnan, saga barnanna í svona fornleifarannsóknum.“

Til stendur að rannsaka næringu allra sem finnast í kirkjugarðinum. Hildur telur einkar áhugavert að skoða næringu barnanna og þá sérstaklega hvað varðar brjóstagjöf.

Í sumar stendur til að grafa upp um 40 beinagrindur en þá hafa alls um 170 beinagrindur fundist á Hofsstöðum. Ýmislegt er enn ókannað í því safni.  Þó hafa beinin þegar nýst í rannsóknir og varpað margvíslegu ljósi á lifnaðarhætti Mývetninga á landnáms- og þjóðveldisöld.

„Það sem gerir þennan stað svo merkilegan er hvað er búið að rannsaka mikið hérna,“ segir Hildur. „Ef við fáum að ráða þá erum við hvergi nærri hætt og ætlum að fara að grafa í gamla bæjarhólinn. En elsta byggð þar er líklega frá því vel fyrir 1300.“

„Þegar uppi verður staðið, og ef þessi áform ganga upp, þá verður búið að rannsaka sögu jarðarinnar frá upphafi til enda með fornleifauppgreftri,“ segir Hildur.

Eyþór Sæmundsson
Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV