Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölga störfum á landsbyggðinni

15.01.2020 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fjölga á störfum hjá Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun og Fiskistofu á landsbyggðinni. Í áætlun sem nær til næstu fimm ára er gert ráð fyrir 36 fleiri störfum á landsbyggðinni.

Áætlun var gerð til að fjölga starfsmönnum stofnana á landsbyggðinni sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Markmiðin eru að fjölga störfum hjá Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun og Fiskistofu árin 2021, 2023 og 2025.

Sömu stofnanir eiga að reyna að hagræða í rekstri með að færa starfsstöðvar í sama húsnæði. Jafnframt eiga þær að bjóða starfsmönnum sínum upp á aukinn sveigjanleika varðandi val á starfsstöð. Þetta kemur fram í áætlun hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem kom út í nóvember. 

Fjölgar mest á Norðurlandi

Verkefnið fór af stað í haust og unnið í samráði við forstöðumenn þeirra stofnana sem átakið nær til. Störf hjá stofnununum þremur  á Austurlandi voru sex á síðasta ári. Árið 2025 eiga þau að vera orðin fjórtán. Störf á Norðurlandi voru 41 talsins í fyrra en verða 57 árið 2025. Í fyrra voru tíu störf á Vestfjörðum, strax á næsta ári eiga þau að verða orðin sautján og árið 2025 verða þau orðin 22 talsins.

Á að efla þjónustu hins opinbera á landsbyggðinni

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun ráðstafa 50 milljónum króna af verkefnafé ráðuneytisins til verkefnisins á þessu ári. „Þessi áætlun er afrakstur vinnu sem ég setti af stað sl. haust og var unnið að útfærslu hennar í samráði við forstöðumenn þeirra stofnana sem að því koma. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem slíkt áætlun er unnið og fjármögnuð með þessum hætti og ég bind vonir við að afrakstur þess verði til þess að efla þjónustu hins opinbera á landsbyggðinni og um leið styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í tilkynningu frá ráðuneytinu.