Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjölga NPA samningum í tilraunaverkefni

02.05.2018 - 22:00
Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
 Mynd: RÚV
Til stendur að fjölga samningum um notendastýrða persónulega aðstoð í höfuðborginni. Það verður þó ekki fyrr en að ný lög um þjónustuna taka gildi í október sem allir þeir sem lögin ná til geti sótt um þjónustuna.

Fjölga í tilraunaverkefni

Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, segir að fjölgun samninga verði lögð til á fundi ráðsins á morgun, en bæta á við samningum í tilraunaverkefni sem hefur staðið í Reykjavík frá árinu 2011.

„Við erum að byrja núna, við fengum aukafjárveitingu frá Alþingi í byrjun ársins. Vorum að fá endalega tölu á það nú fyrir skömmu síðan og erum að fara að leggja fram tillögu í velferðarráði á fimmtudaginn um að fjölga þessum samningum þannig að við mætum öllu fjármagni sem kemur frá ríkinu, og bætum í samningum. Og svo verður þetta innleitt, að mér skilst, í skrefum,“ segir Elín.

„Lögin eru nú ekki komin inn á vef Alþingis, en ég vona að þau séu á leiðinni þangað inn, og sveitarfélögin verði upplýst með hvaða hætti þetta verður framkvæmd. En það hefur að minnsta kosti aldrei strandað á Reykjavíkurborg að vinna þessi mál hratt og vel, þegar Alþingi hefur loksins tekið við sér.“

Óljóst hversu margir eiga rétt í október

Ellefu samningar eru í gildi í dag og mun þeim fjölga um allt að sjö. Óljóst er hversu margir eiga rétt á þjónustunni í október.

„Það er mjög erfitt fyrir okkur að meta það. Við vitum svona nokkurn veginn hverjir sóttu um tilraunaverkefnið á sínum tíma, það voru eitthvað á milli 20 og 30 manns. Síðan hefur hópurinn breyst síðan þá. En þetta er ekki þjónusta sem hefur verið hægt að sækja um, enda hefur hún ekki verið lögfest fyrr en núna,“ segir hún.

adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV