Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjöldi staðfestra smita vel innan við 1% í skimuninni

17.03.2020 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
22 kórónaveirusmit hafa verið staðfest í skimun Íslenskrar erfðagreiningar, deCode, í turninum í Kópavogi vegna faraldursins. Öll staðfest smit eru send til sóttvarnarlæknis sem rekur smitleiðir og sér um að fylgja þeim einstaklingum sem eru smitaðir eftir.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við fréttastofu á tólfta tímanum að 2640 sýni hafi verið tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu. Skimunin hefur þess vegna leitt í ljós að vel innan við eitt prósent þjóðarinnar er smitað. „Það bendir til þess að veiran er ekki á fleygiferð um samfélagið,“ segir Þóra Kristín.

Enn er allt uppbókað í skimun Íslenskrar erfðagreiningar en erfitt hefur reynst að fá bókaðan tíma síðan fyrir helgi.

Á vefnum covid.is má finna tölfræði um útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Tölurnar frá Íslenskri erfðagreiningu koma ekki strax inn í þessa tölfræði. Klukkan hálf tólf í dag höfðu 199 smit verið staðfest og 2.278 sýni verið tekin á vegum landlæknis og sóttvarnarlæknis. Þrír eru á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins.