Fjöldi símtala í Hjálparsímann margfaldast

30.03.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Adrienn - Pexels
Fjöldi símtala í Hjálparsíma Rauða krossins hefur margfaldast frá því kórónuveirufaraldurinn braust út. Áhyggjur fólks snúa ekki síður að efnahagslegum áhrifum faraldursins en sjúkdómnum sjálfum. Þetta segir Sandra Björk Birgissdóttir, verkefnisstjóri í Hjálparsíma Rauða krossins.

„Við höfum fundið fyrir gríðarlegri aukningu af samtölum til okkar, símtölum og netspjöllum. Á venjulegri viku erum við að taka kannski 250 samtöl en síðustu vikur höfum við verið að tala um þrjú þúsund samtöl á viku. Þetta er í rauninni bara allt sem tengist Covid. Það er sjúkdómurinn sjálfur, veiran sem fólk hefur áhyggjur af. Svo eru það líka bara áhyggjur af efnahagslegu ástandi og öllu sem því fylgir,“ segir Sandra.

Leggst þungt á þá sem eru með  undirliggjandi sjúkdóma

Sandra segir að samskiptafjarlægð taki einnig á fólk enda minna um það að fólk heimsæki vini og ættingja. Þetta leggist sérstaklega þungt á þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og hafa farið í sjálfskipaða sóttkví. Þeim finnist þeir einangraðir. „Við finnum fyrir því að fólk er einmana og kvíðið og áhyggjufullt yfir þessu öllu saman.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi