Fjöldi öryrkja tvöfaldast frá aldamótum

05.11.2018 - 22:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Um 21 þúsund manns eru með 75 prósenta örorku- og endurhæfingarmat hér á landi og hefur fjöldinn tvöfaldast frá aldamótum. Rúmlega þriðjungur glímir við andleg veikindi. Formaður Örykjabandalagsins segir að þeir sem fari einu sinni á örorku eigi oft erfitt með að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

Öryrkjum á íslandi hefur fjölgað að meðaltali um 500 á ári frá aldamótum og hafa aldrei verið fleiri en nú. Samkvæmt tölum Tryggingastofnunar voru um 21 þúsund skráðir með 75 prósenta örorku og endurhæfingarmat í síðastliðnum maímánuði en þar af voru rúmlega 8.300 með geðraskanir. 

Í rannsókn sem var unnin af Rannsóknarsetri í fötlunarfræði við Háskóla Íslands kemur fram að langvarandi álag og streita á vinnumarkaði eigi stóran þátt í því að fólk fer á örorku. 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir að fólk sem fari einu sinni á örorku eigi oft erfitt með að fara aftur út á vinnumarkaðinn. „Við erum með mjög erfiðan vinnumarkað sem tekur ekki við fólki með skerta starfsgetu. Við erum með harðar skerðingar, alveg rosalega harðar skerðingar hérna á Íslandi, sem virkar mjög letjandi. Ef að fólk vill ná sér í einhverjar bjargir, þá fer það ekki út á vinnumarkaðinn. Þannig að við erum með kerfi sem er mjög óvinveitt.“

Biðlistar í skólann 

Um 30 prósent öryrkja eru innan við fertugt og fer ungum karlmönnum fjölgandi. Úrræði eru af skornum skammti og stundum of dýr. Margir hafa leitað til Bataskóla Íslands sem býður upp á námskeið fyrir fólk með geðraskanir en markmiðið er að auka sjálfstiltrú, von og lífsgæði nemenda. „Við höfum stanslaust verið með biðlista í skólann,“ segir Þorsteinn Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Bataskóla Íslands. „Við höfum reynt að sinna því og auka við starfsemina en við erum enn með 70 manna biðlista“

Þorsteinn að samfélagið í heild verði að taka á þessum vanda. „Þetta virðast vera samverkandi þætti. Þetta er ekki bara vinnan. Þetta eru líka fjárhagsáhyggjur, húsnæðisáhyggur og þegar það leggst saman við mikið vinnuálag og erfiðar aðstæður í vinnunni þá lætur eitthvað undan.“

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV