Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjöldi landsmanna kýs að eyða jólunum í sólinni

23.12.2019 - 16:08
Innlent · Ferðalög · flug · Jólin · Kanarí · Tenerife
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Fjöldi Íslendinga eyðir jólum og áramótum utan landsteinanna. Forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals útsýnar segir fjöldann sambærilegan við fyrri ár. Fólk hafi þó bókað ferðirnar tímanlegar í ár. Tæplega fjórtán þúsund Íslendingar fóru af landi brott dagana 17. til 22. desember í fyrra, samkvæmt mælingum Isavia. „Mjög stór hópur verður á Tenerife og Kanarí á okkar vegum þessi jólin.“

Þetta segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals útsýnar. Þetta séu vinsælustu áfangastaðirnir á þessum tíma árs. Þessar ferðir hafi verið vinsælar til fjölda ára. „Fólk bókaði mjög tímanlega í ár til að komast í sólina yfir jól og áramót,“ segir hún.

 

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir að um sjö hundruð manns ætli sér að eyða jólunum og áramótunum á Tenerife og Kanarí á þeirra vegum í ár. Það sé aðeins meiri fjöldi en hafi verið á undanförnum árum.

Hann tekur undir með Þórunni og segir fólk hafa verið talsvert fyrr á ferðinni með bókanir en áður. Nánast hafi orðið uppselt í jólaferðirnar á sumarmánuðunum. Hann segir það eflaust skýrast af því hvernig frídagar raðast í ár. „Menn hafa líklegast litið á dagatalið og séð að þetta væri heppilegur tími til að ferðast.“

Um sex hundruð manns ferðast þá til Kanarí og Tenerife á vegum ferðaskrifstofunnar Vita yfir hátíðirnar í ár. Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Vita segir að þá séu einnig um hundrað manns á þeirra vegum í skíðaferðum yfir jól og áramót. Hann segir löngu uppselt í ferðirnar og margir mánuðir síðan. Alltaf komist færri að en vilji í þessar ferðir.