Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjöldi lamba orðið fyrir bílum á Vestfjörðum

13.07.2016 - 10:07
Talsvert fleiri kindur hafa orðið fyrir bílum á þjóðvegum Vestfjarða í ár en á sama tíma í fyrra. Enn eru þjóðvegir víða um land ógirtir og bændur geta þurft að bíða í mörg ár eftir fjárstuðningi fyrir girðingu.

Það sem af er ári hefur lögreglunni á Vestfjörðum borist tæplega fimmtíu tilkynningar um að ekið hafi verið á sauðfé, allt frá Reykhólahreppi norður Ísafjarðardjúp. Á sama tíma í fyrra voru tilfellin þrjátíu. Þjóðvegurinn liggur til dæmis í gegnum jörðina Svarthamar í Álftafirði í Ísafjarðarjúpi. Það sem af er sumri hafa ábúendur hér misst 12 kindur fyrir bíla. „Það sem af er eru þetta þrjár ær og restin lömb en þetta er bara ofboðslega misjafnt. Stundum er það bæði rolla og lamb sem er keyrt á í einu og stundum bara lamb,“ segir Guðmundur Magnús Halldórsson, bóndi á Svarthamri í Álftafirði.

Umferð hefur aukist um þjóðvegi landsins en ekki er ljóst hvort aukinn fjöldi ferðamanna hefur áhrif á fjölda kindaáreksta þar sem tilkynningar, sem berast lögreglunni, eru sjaldnast frá þeim sem lenda í árekstrunum. Bændum er bættur skaðinn en lambmissir getur haft slæmar afleiðingar fyrir ærnar: „Þetta er mjög slæmt, sérstaklega ef þetta er snemma sumars, kind með full júgur af mjólk, það er náttúrlega mjög slæmt. Það er náttúrlega hundleiðinlegt, það er leiðinlegt að horfa upp á þetta svona. Að verða að missa þetta í umferð í staðinn fyrir að fá aurana í sláturhúsi.“

Þá skapast slysahætta vegna þjóðvegakindanna og hefur lögreglan á Vestfjörðum hvatt vegfarendur til að hafa varann á og bændur til að reka fé frá vegum: „Það væri hægt að girða af vegina, það væri stór plús ef það væri gert. Það er búið að gera það af hluta en það er bara ekki nóg. En það er það bara eina sem er hægt að gera.“

Vegagerðin girðir af nýja vegi, sem liggja í gegnum jarðir, jafnóðum en enn á eftir að girða kafla við eldri vegi. Bændur geta óskað eftir fjárstuðningi Vegagerðarinnar en þurfa jafnvel að bíða í mörg ár. Einungis 15 milljónum var úthlutað til málaflokksins á þessu ári á Vesturlandi. Á Svarthamri, líkt og víðar á landinu, þá tekur girðingin enda við næstu jörð og kindurnar eru fljótar að finna safaríkasta grasið, sem getur verið innan þjóðvegagirðingar Vegagerðarinnar.  

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður

Tengdar fréttir