Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fjöldi hælisumsókna þrefaldaðist milli ára

19.01.2017 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rúmlega ellefu hundruð umsóknir bárust um vernd á Íslandi á nýliðnu ári, en það eru rúmlega þrisvar sinnum fleiri en árið á undan. Meira en helmingur umsóknanna kom frá Makedónímönnum og Albönum. Meðalafgreiðslutími umsókna styttist milli ára.

 

Útlendingastofnun bárust á síðasta ári 1.132 umsóknir um vernd frá ríkisborgurum 56 ríkja, en árið 2015 voru umsóknirnar 354. Alls bárust 468 umsóknir frá fólki frá Makedóníu og 231 frá Albönum sem er 60% af öllum umsóknum. Þar á eftir koma Írakar en 73 umsóknir bárust þaðan, 42 Georgíumenn sóttu um vernd og 37 Sýrlendingar.  Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun skýrist fjölgun umsókna ekki eingöngu af miklum fjölda frá Makedóníu og Albaníu, því ef umsónir þaðan eru taldar frá var fjöldi umsókna tvisvar sinni meiri en árið 2015. Umsóknir frá körlum eru mun fleiri en frá konum, 73% umsókna voru frá körlum en 27% frá konum, 76% voru fullorðnir og 24% börn. Þá voru umsóknir frá fylgdarlausum ungmennum 18. 

Niðurstaða fékkst í 977 umsóknir, 548 mál voru tekin til efnislegar meðferðar, 224 mál voru afgridd með endursendingu á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, 46 umsóknum var synjað vegna þess að viðkomandi höfðu þegar fengið vernd annars staðar og 159 drógu umsóknir sínar til baka. 

Meðalafgreiðslutími allra umsókna á árinu var 80 dagar.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV