Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjöldagrafir í Sinjar rannsakaðar

06.06.2019 - 11:34
epa04694539 Iraqi flag covers the site believed to be a mass grave of suspected Islamic State (IS) massacre victims, at Speicher base in Tikrit, northern Iraq, 07 April 2015. Iraqi security forces said that since recapturing the city of Tikrit last week
Fjöldagröf sem fannst nærri Tikrit í Írak. Mynd: EPA
Yfirvöld í Írak rannsaka nú líkamsleifar meira en 140 manna sem fundust í fjöldagröfum á svæðum Jasída í Sinjar-héraði í norðurhluta Íraks. 

Jasídar sættu ofsóknum Sinjar eftir að sveitir hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins lögðu héraðið undir sig árið 2014. Konur og stúlkur voru hnepptar í ánauð, ungir drengir þvingaðir til að berjast fyrir samtökin, en fullorðnir karlmenn voru drepnir.

Sérfræðingar á vegum sameinuðu þjóðanna sögðust i síðasta mánuði hafa fundið allt að 16 fjöldagrafir nærri bænum Kojo í Sinjar. Lagt verður kapp á að bera kennsl á hina látni og lífsýni hafa verið tekin úr fólki sem leitar horfinna ástvina.

Þótt hryðjuverkasamtökin séu horfin frá Sinjar og fólk sé farið að snúa til baka er enn ekkert vitað um afdrif þúsunda Jasída sem lentu í klóm þeirra.