Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fjölbreytt forysta í atvinnulífinu

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Margt hefur breyst með tilkomu kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja og lífeyrissjóða. Breytingarnar hafa ekki aðeins átt sér stað við stjórnarborðið heldur eru þær einnig fólgnar í viðtækum viðhorfsbreytingum. Á dagskrá Rásar 1, 19. júní kl. 15:03.

Ný tækifæri samfara aukinni fjölbreytni

Ísland er annað landið á eftir Noregi sem lögbindur kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Tæp tvö ár eru síðan lögin tóku gildi hér á landi. Konum hefur fjölgað mikið í stjórnum stærri fyrirtækja síðan lögin voru sett. Árið 2014 voru konur þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri, til samanburðar við 12,7% árið 2007 og 9,5% árið 1999. En hvað hefur breyst með auknum fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja? Sú spurning er lögð til grundvallar í þættinum Fjölbreytt forysta í atvinnulífinu.

Í upphafi þáttarins er rætt við dr. Þórönnu Jónsdóttur, forseta viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, sem rifjar upp hvernig umræðan var áður en lög um kynjakvóta voru sett á Íslandi.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar deilir sinni skoðun á kynjakvótanum og segir frá því hvaða áhrifa gætir með tilkomu hans hjá stjórnum skráðra félaga á markaði.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir einnig frá sinni skoðun á kynjakvótanum og ræðir áskoranir og árangur innan þeirra stjórna sem hann þekkir til. Hann segir einnig frá breytingum sem orðið hafa á stjórnarháttum síðustu ár.

Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður Veritas og Viðskiptaráðs Íslands hefur verið fulltrúi Íslands á erlendum vettvangi og rætt þær forsendur sem þurfa að vera til staðar svo vinna megi að jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu. Hreggviður ræðir um þrjár stoðir sem þurfa að vera til staðar í samfélaginu svo jafnrétti fái notið sín.

Dr. Auður Arna Arnardóttir, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, er ein þeirra sem hefur rannsakað áhrif kynjakvótans á stjórnir fyrirtækja á Íslandi. Hún greinir frá hluta af þeim niðurstöðum sem rannsóknirnar hafa leitt af sér.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Já, miðlar af reynslu sinni af því hvað hefur breyst með tilkomu aukins fjölda kvenna við stjórnarborðið. 

Umsjón: Edda Jónsdóttir

Jónatan Garðarsson
dagskrárritstjórn