Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjölbreytni í geðheilbrigðisþjónustu nauðsynleg

Mynd með færslu
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Valdís Eyja Pálsdóttir, forstöðumaður Grófarinnar handsöluðu samninginn um helgina. Mynd: Stjórnarráð Íslands
Geðverndarmiðstöðin Grófin á Akureyri fær 12 milljónir króna frá ríkinu á næsta ári. Gleðitíðindi segir forstöðumaður, enda þurfi meira til að ná geðheilsu heldur en geðlækna og lyf.

Grófin og félags- og barnamálaráðuneytið undirrituðu samning um þetta síðastliðna helgi. Þetta er í fyrsta sinn sem miðstöðinni er úthlutað fjármunum á fjárlögum og Valdís Eyja Pálsdóttir forstöðumaður er að vonum glöð. Þetta hafi gífurlega þýðingu og veiti starfsöryggi. Það sé mikill léttir að starfsemin sé tryggð, allavega næsta árið. 

Nú sé hægt að beina orkunni meira í innra starfið, að vinna með og fyrir fólkið frekar en að hugsa um fjármálahliðina og atast í bréfaskriftum við ráðherra og þingmenn.  

Fjölbreytni sé nauðsynleg

Grófin er eini staðurinn á Norðausturlandi sem fólk með geðraskarnir hefur opinn aðgang að. Valdís segir starfsemina mjög mikilvæga. Það þurfi fjölbreytni í þjónustuna. Ekki sé nóg að hitta geðlækna og fá lyf, það sé mikilvægt en það þurfi fleira til að ná geðheilsu. Grófin sé einn hluti af því púsluspili, hvort sem beina þurfi fólki rétta leið eða veita því félagslegan stuðning. Mikilvægt sé að hitta aðra í sömu stöðu. 

Hingað til hefur verið einn starfsmaður á launum hjá Grófinni auk öflugra sjálboðaliða. Valdís Eyja segir að úthlutunin þýði að það verði hægt að bæta við hálfum starfsmanni. Grófin hóf starfsemi 2013 og þangað leita að meðaltali 20 manns á dag.

„Það er afar mikilvægt að þjónusta sem þessi sé í boði á landsbyggðinni og að þeir sem á þurfa að halda þurfi ekki að leggjast í löng ferðalög til að sækja sér þjónustu við hæfi. Starfsemi Grófarinnar hefur gefið góða raun og er ánægjulegt að geta tryggt henni áframhaldandi brautargengi,“ sagði Ásmundur Einar, félags- og barnamálaráðherra, við undirritunina.

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV