Fjölbreytileiki og furðuverur á hafsbotni

01.08.2019 - 11:15
Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Áhöfn rannsóknaskips Hafrannsóknastofnunar, Bjarna Sæmundssonar, kannaði lífríki hafsbotsins á dögunum og þar kenndi ýmissa grasa. Meðal annars fann leiðangursfólk furðudýr á Kötlugrunni sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun segir ekki enn vitað hverrar tegundar er.

Leiðangur rannsóknaskipsins var hluti af langtímaverkefni þar sem búsvæði á hafsbotninum við landið eru útlistuð og fjölbreytileiki þeirra kannaður. Um leið metur leiðangursfólk hvort búsvæðin séu viðkvæm og þurfi að vernda. Til slíkra svæða teljast til dæmis kóralrif og svampabreiður.

Steinunn Hilma Ólafsdóttir, leiðangursstjóri, segir að verkefnið sé langtímaverkefni. Það sé mjög tímafrekt og leiðangursfólk geti gert lítið í einu. Í rannsóknarleiðöngrum sem þessum senda þau búnað niður á hafsbotn, þrífótung með myndavél, staðsetningarbúnaði og sónartæki. Búnaðurinn sendir myndir í gegnum kapal upp í skipið og þar fylgjast rannsakendur með í rauntíma. „Það er misjafnt hvað við erum lengi, við höfum verið minnst sex daga en síðustu tvö skipti vorum við í tíu til ellefu daga sem er ágætt,“ segir Steinunn. „Það er að mörgu að huga, við getum þurft að færa okkur til ef undiraldan er of mikil en við höfum verið heppin, lítið um bilanir í tækjabúnaði og það hefur gengið mjög vel.“

Margt sem á eftir að kanna

Flestar fisktegundir í hafinu umhverfis Ísland eru þekktar, enda hafa fiskistofnar í kringum landið verið vaktaðir árum saman, en ekki hefur verið fylgst jafn vel með lífi á hafsbotninum. Rannsóknarsvæðið náði frá Jökuldjúpi í vestri að Hornarfjarðardjúpi í austri.

Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Fjólufætlur í Jökuldjúpi

Í Jökuldjúpi voru fjólufætlur áberandi og við Eldey var myndaður kóralgarður með tegundinni swiftia en aldrei fyrr hefur þessi kóraltegund sést í jafnmiklu magni þótt hún sé ein fjölmargra kóraltegunda við Íslandsstrendur. Úti fyrir Suðurlandi fundust dauð kóralrif auk þess sem kóralrif, sem vitað er að voru þar áður, voru horfin. Mikið veiðálag er á þessu svæði.

Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Kóralrif út af Síðugrunni og Öræfagrunni. Þau eru á 500 metra dýpi.

Ótrúleg fjölbreytni í djúpinu

Steinunn Hilma segir að það hafi staðið upp úr í leiðangrinum að þau eru farin að geta séð sumt fyrir. Að kanna hafsbotninn sé gífurlega fjölbreytt verkefni. „Hvert svæði hefur sín einkenni. Það er alveg magnað, við förum á eitt svæði og þar er bara sandur og ekkert að sjá. Við færum okkur um kílómetra og þar er allt krökkt af lífi og svo færum við okkur lengra og þar eru allt aðrar lífverur,“ segir Steinunn. „Það er magnað hvað við eigum mikið af ólíkum samfélagsgerðum þarna niðri.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Sæfjaðrir, náskylt kóraldýri. Hver sæfjöður er sambýli fjölmargra einstaklinga.
Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Svampar og sæliljur í Jökuldjúpi

Furðudýr á hafsbotni

Þá fannst áður óþekkt dýr á Kötlugrunni. Dýrið er ljósfjólublátt á litinn, með tvær raðir af öngum og ferkantaðan fót. Steinunn segir að ekki sé vitað af hvaða tegund dýrið er, það minni á sæfífil en hefur ákveðin einkenni. „Við getum ekki tekið sýni með búnaðinum, enda viljum við ekki vera að taka dýr sem er mögulega eina dýrið í sjónum. Við reynum að skoða líkamsbygginguna og formið.“ 

Aðeins hluti þeirra 3000 botndýrategunda sem finnast við Ísland hefur verið myndaður og nú vinnur leiðangursfólk að því að kanna hvort dýrið sé af áður óþekktri tegund eða hvort það sé af einni þeirra tegunda sem nú þegar þekkjast við landið. Furðudýrið er sem fyrr segir ljósfjólublátt að lit en blár er ekki algengur litur í sjónum að sögn Steinunnar. „Það eru samt miklir litir í sjónum okkar, til dæmis rauður og appelsínugulur.“

Mikilvægt að kanna hafið

Steinunn segir gífurlega mikilvægt að við þekkjum svæðin í kringum okkur. Hafsvæðið í kringum Ísland sé risastórt en við þekkjum það lítið þótt við nýtum það mikið. „Það er grundvöllur fyrir okkur að vita hvað við eigum þarna, það er mikill fjölbreytileiki og ekki búið að kortleggja hann mikið,“ segir Steinunn. „Það er mikilvægt að vita hvaða svæði eru viðkvæm fyrir ágengum veiðum en það er líka mikilvægt að vita hvernig við stöndum gagnvart öðrum hafsvæðum. Hvað er sjaldgæft hér en algengt annars staðar, hvaða tegundir eru viðkvæmar og hvaða tegundir á að vernda. Til að geta tekið þátt í þessu verðum við að vita hvað við erum með í höndunum.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Furðudýrið sem fannst á Kötlugrunni
Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi