Fjögurra sólarhringa mótmæli í Hong Kong

27.09.2019 - 17:48
epa07873891 People attend a rally at Edinburgh Place, Hong Kong, China, 27 September 2019. Hong Kong has entered its fourth month of mass protests, originally triggered by a now suspended extradition bill to mainland China that have turned into a wider pro-democracy movement.  EPA-EFE/FAZRY ISMAIL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mörg þúsund lýðræðissinnar í Hong Kong eru komnir saman til mótmælaaðgerða, sem eiga að standa fram á þriðjudag. Þann dag verður sjötíu ára afmæli alþýðulýðveldisins Kína fagnað. Ekki fékkst leyfi fyrir mótmælunum í Hong Kong.

Með þessum aðgerðum ætla lýðræðissinnar að reyna að draga athyglina frá hátíðarhöldunum í Kína, sem ná hámarki með hersýningu á Torgi hins himneska friðar í Peking. Fastlega er búist við því að mótmælendur í Hong Kong fái að kenna á pólitískum andstæðingum sem áður hafa hent í þá grjóti og heimagerðum eldsprengjum. Einnig er búist við að lögregla varpi á þá táragasi, beiti vatnsþrýstibyssum og skjóti á þá gúmmíkúlum. Sótt var um leyfi fyrir mótmælunum, en það fékkst ekki af öryggisástæðum.

Komið er fram á nótt í Hong Kong. Lýðræðissinnarnir söfnuðust saman í kvöld og hlustuðu á frásagnir félaga þeirra sem voru handteknir síðastliðið sumar og vistaðir í búðum skammt frá kínversku landamærunum. Þar var þeim haldið án þess að fá að ræða við lögmenn eða fá læknishjálp.

Á morgun hyggjast mótmælendur safnast saman í almenningsgarði skammt frá þinghúsi sjálfstjórnarhéraðsins til að minnast þess að fimm ár eru frá regnhlífabyltingunni svonefndu, 79 daga andófi stúdenta sem kröfðust þess að kosningalögum í Hong Kong yrði breytt.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV