Fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun

26.03.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur dæmdi 26 ára karlmann í morgun til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar. Hann svipti þáverandi unnustu sína frelsi, nauðgaði henni og beitti hana öðru ofbeldi sumarið 2018. Auk fangelsisvistarinnar var maðurinn dæmdur til að greiða konunni tvær milljónir króna í bætur.

Maðurinn og konan tóku saman snemma árs 2018 og voru í skammvinnu sambandi. Maðurinn bjó í Reykjavík en hún í sveitarfélagi úti á landi. Maðurinn kom þangað helgi eina um sumarið þrátt fyrir að konan hefði andmælt því. Hún sagðist hafa samþykkt að tala við manninn gegn því að hann færi aftur suður. Hann hefði þá keyrt burt með hana en þegar hún vildi fara aftur heim hefði maðurinn ekki hlýtt því. Þvert á móti hefði hann farið annað með konuna og ráðist á hana. Þar hefði hann beitt sig ofbeldi, nauðgað sér og komið í veg fyrir að hún kæmist burt þrátt fyrir að hún reyndi að flýja. Konan komst loks frá manninum og gat forðað sér heim.

Dómari segir að framburður konunnar sé trúverðugur og hún sjálfri sér samkvæm. Önnur gögn málsins styðja framburð konunnar. Þar á meðal skoðun á áverkum hennar eftir árásina. Öðru máli gegndi um framburð mannsins, sem væri ótrúverðugur og að hann hefði gert minna úr atburðum en gögn málsins gáfu tilefni til.

 

Í umsögn sálfræðings kom fram að ljóst væri að konan hefði glímt við mikla vanlíðan í kjölfar líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis af hálfu mannsins og eftir langvarandi andlegt ofbeldi af hans hálfu. Sálfræðingurinn sagði konuna hafa lýst því að hún væri brotin og óörugg. Hún ætti erfitt með að treysta fólki. Fram kemur í dómnum að erfiðlega gekk að bóka viðtal sálfræðings og konunnar á tímabili. Þegar það loks tókst hefði hún lýst andlegu og líkamlegu ofbeldi af hans hálfu í millitíðinni.

 

Meðal rannsóknargagna er uppskrift af hljóðupptöku úr síma mannsins daginn fyrir árásina. Þar heyrðist hann segja í samtali við vin sinn að hann myndi myrða konuna og fyrrverandi eiginmann hennar og fara brosandi í fangelsi. Að kvöldi næsta dags hringdi hann aftur í vin sinn og sagðist þá bara vera með konuna í bíl sínum. Síðla nætur, eftir árásina, sagðist hann í samtali við sama vin hafa barið konuna en taldi að ekki sæi á henni svo að hann væri „alveg góður“.

 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi