Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjögurra ára barn meðal látinna í Síle

23.10.2019 - 14:45
epa07941618 Police officers arrest a demonstrator during clashes in Valparaiso, Chile, 22 October 2019. Thousands of people in Chile returned to the streets on 22 October, for the fifth consecutive day, to protest against the Government amidst the states of emergency and the new curfews already decreed in several areas of the country. Unrest, sparked by a hike in metro fares, quickly morphed into a wider protest against social inequality.  EPA-EFE/Fernando Bizerra Jr.
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fjögurra ára gamalt barn var meðal þeirra sem létust í mótmælunum í Síle í gær. Átján hafa látist frá því fólk hóf að mótmæla hækkun fargjalda í neðanjarðarlestir í Santiago, höfuðborg Síle á föstudag.

Barnið og fullorðinn maður féllu þegar drukkinn ökumaður ók inn í hóp mótmælenda. Lögregla og herinn hafa brugðist gríðarlega hart við mótmælunum sem hafa orðið að allsherjarmótmælum gegn vaxandi bili milli ríkra og fátækra í landinu.

Forseti Síle lagði í gærkvöld til félagslegar umbætur til þess að mæta kröfum mótmælenda í landinu. 18 hafa látið lífið í mótmælum undanfarinna daga. Sebastian Pinera forseti hélt fund með leiðtogum nokkurra stjórnarandstöðuflokka í gærkvöld.

Þrír flokkar sendu ekki fulltrúa til fundarins, þar á meðal Sósíalistaflokkurinn, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi Síle.

Meðal umbóta sem Pinera kynnti var 20 prósenta hækkun á lágmarkslífeyri, að ríkið standi straum af kostnaði við dýrar læknaaðgerðir, og að skattar á rafmagn verði frystir.

Pinera lýsti yfir neyðarástandi í Santiago og víðast hvar annars staðar í landinu. Síðustu fjóra daga hefur herinn lagt á útgöngubann frá átta að kvöldi til fimm að morgni.

Það kvað við annan tón frá Pinera á mánudag þegar hann óskaði eftir samstöðu allra stjórnmálaflokka um að finna lausn á þeim vandamálum sem Sílebúar eiga við að etja. 

Ofbeldið sem fylgt hefur mótmælunum er eitthvert það versta frá einræðistíð Augusto Pinochet frá 1973 til 1990. Um 20 þúsund manna lið lögreglu- og hermanna var kallað út til að gæta öryggis almennra borgara. Meiri ró var þó yfir höfuðborginni í gær og í fyrradag en um helgina.

Almenningssamgöngur lágu þó enn að miklu leyti niðri, verslunarmiðstöðvar og fyrirtæki voru lokuð og um 50 skólar og tíu háskólar voru lokaðir í Santiago. Sjúkrahús og meðferðarstofnanir voru opnar.