Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjögur uppsjávarskip taka þátt í loðnuleit

09.01.2020 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Rannsóknarskipið Árni Friðriksson heldur til loðnuleitar og mælinga í næstu viku. Með í leiðangrinum verða tvö uppsjávarskip, að því er segir í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun.

Óvissa hefur verið um þáttöku veiðiskipa í leitinni síðustu daga en samkomulag hefur náðst um að Hafrannsóknarstofnun greiði 30 milljónir, eða um helming kostnaðar útgerða, við leitina. Stofnunin hefur metið það sem svo að nauðsynlegt sé að fá tvö skip með í tvær mælingar. 

Samkomulag náðist í gær um að útgerðir komi að leitinni og leggi til skip í samtals 30 daga. Hafrannsóknastofnun stýrir leitinni og mælingum.

Í fyrstu ferðina fara uppsjávarveiðiskipin Hákon EA-148 og Bjarni Ólafsson AK-070 en önnur skip verða til taks síðar fyrir leit í febrúar. Ætlunin er að mæla í janúar og febrúar og verða niðurstöðunar nýttar til grundvallar fyrir fiskveiðiráðgjöf vetrarvertíðarinnar.