Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fjarvera Baldurs hefur áhrif á ferðamennsku

24.05.2017 - 19:07
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Samgöngur standa í vegi fyrir því að Vestfirðir eru markaðssettir sem heilsársáfangastaður. Reynt er að lengja tímabilið með áherslu á vor og haust en fjarvera Baldurs hefur sett strik í reikninginn.

Reyna að lengja ferðamannatímabilið

Víða um land er keppst við að markaðssetja landshluta fyrir ferðamennsku allt árið. Önnur er raunin á Vestfjörðum. „Heilt yfir erum við að leggja áherslu á axlartímabilin. Semsagt vor og haust. Að lengja tímabilið sem er,“ segir Díana Jóhannsdóttir, markaðsfulltrúi Markaðsstofu Vestfjarða. Díana segir að samgöngur, bæði hvernig þær eru og hugmyndin um þær, reynist hamlandi þáttur fyrir ferðaþjónustuna. Nú setji fjarvera Baldurs svo strik í reikninginn. 

Afbókað á hótelum

Soffía Haraldsdóttir er ein eigenda Flókalundar: „Við finnum náttúrlega fyrir því að það er færra fólk en við áttum von á og við höfum fengið svolítið af afbókunum, þá aðallega þegar fólk er komið í Stykkishólm og ætlað að taka bátinn yfir en hættir við þegar það uppgötvar það að það þarf að keyra.“

Vill fullnægjandi lausn

„Þetta er auðvitað gert í engu samráði við heimamenn. Við erum með lítinn fyrirvara á þessu svo við eigum erfitt með og ferðaþjónar eiga erfitt með að bregðast við. Og svo aftur þegar Baldur fer í haust, það þarf að pressa á að það komi fullnægjandi lausn á þessum tímabilum,“ segir Díana. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni þá skortir fjárveitingar til að leigja annað skip og hefur ákvörðun varðandi haustið ekki verið tekin. „Það er vonlaust fyrir okkur að vera að einbeita á þessi tímabil, vor og haust, þegar við missum svo þennan mikilvæga leið inn í fjórðunginn,“ segir Díana.