Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjártæknibyltingin og „Kódak móment“ banka

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Hvernig verða bankar framtíðar? Verða kannski engir bankar? Undanfarin ár hafa orðið hraðar breytingar í bankageiranum og það eru frekari breytingar framundan. Breytingar sem áttu þátt í því að hundrað starfsmönnum var sagt upp í Arion banka í gær. 

Fjölbreyttari samkeppni vó þungt

Arion banki réðst í gær í mestu fjöldauppsagnir sem íslenskt fjármálafyrirtæki hefur ráðist í frá hruni. Í tilkynningu frá bankanum voru ástæður þessa taldar upp og minnst á stóraukna samkeppni á fjármálamarkaði, meðal annars frá lífeyrissjóðum, fjártæknifyrirtækjum og minni fjármálafyrirtækjum sem ekki lúta sömu lögmálum og kerfislega mikilvægir bankar. Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samkiptasviðs Arion banka, segir í samtali við Spegilinn ljóst að aukin samkeppni frá þessum fyrirtækjum hafi vegið þungt og verið einn af drifkröftunum á bak við þá ákvörðun bankans að segja upp fólki og breyta skipulagi. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Höfuðstöðvar Arion banka.

Bankar bregðist við eða verði undir

Í tilkynningu bankans frá í gær segir að skipulag bankans hafi ekki tekið nægjanlega mið af núverandi markaðsaðstæðum. 

Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018 er lögð áhersla á að hefðbundir viðskiptabankar þurfi að endurhugsa þjónustu- og viðskiptalíkön sín til að viðhalda starfsemi sinni þar segir: 

„Að öðrum kosti er fyrirséð að þeir muni eiga svokallað „Kódak móment“, en hugtakið, sem var fyrir um áratug notað um sérstaklega tilkomumikið augnablik, sem var vel þess virði að festa á filmu, hefur í síauknum mæli verið notað um farsæl fyrirtæki sem halda ekki í við þróun á markaði. Haldi fjármálafyrirtæki ekki í við þróun á markaði þá má gera ráð fyrir að stór hluti af þeirri þjónustu sem þau veita í dag verði yfirtekinn af samkeppni úr nýjum áttum.“

Það er fjártæknibylting í aðsigi, bylting sem á eftir að hafa djúpstæð áhrif á bankastarfsemi og umbylta fjármálaþjónustu. 

PSD2 hvað? 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Það er fjártæknibylting í aðsigi, bylting sem á eftir að hafa djúpstæð áhrif á bankastarfsemi og umbylta fjármálaþjónustu. Sjálfvirknivæðing og stafrænar lausnir eiga að auðvelda bönkum að minnka rekstrarkostnað og bjóða betri kjör en sumar breytingar knýja þá til að aðlagast. Hér verður fjallað um eina slíka. Innleiðingu greiðsluþjónustutilskipunar Evrópusambandsins á greiðslumiðlun, PSD2. Tilskipunin felur í sér að viðskiptavinir banka á EES-svæðinu geta fengið önnur fyrirtæki en bankann til þess að inna af hendi greiðslur, veita lán eða geyma fyrir sig fjármálaupplýsingar. Kjósi þeir það er bankanum skylt að veita þessum fyrirtækjum bankaupplýsingar viðkomandi. Þetta getur til dæmis verið fyrirtæki sem býður upp á heimabankaþjónustu eða greiðslusnjallforrit. Þessi fyrirtæki eru sérhæfð á ákveðnu sviði og bankarnir, sem eru með dreifðari áherslur gætu átt erfitt með að keppa við þau. 

Samkeppni ógnar bönkum

Tilskipunin hefur ekki verið innleidd hér, en það stendur til. Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasans, sem var stofnaður fyrir tæpu ári, segir að hún verði fljótlega innleidd í nágrannalöndum okkar. Hann segir breytingarnar varða alla fjármálaþjónustu bankanna.
„Þetta felur í sér að bönkunum er skylt að gera neytendum kleift að nálgast bankareikninga sína og bankaupplýsingar í gegnum þriðja aðila eins og einhver öpp, einhver snjallforrit sem einhverjir aðrir bjóða upp á, fjártæknifyrirtæki af ýmsu tagi. Það gerir það að verkum að samkeppni eykst verulega, bankarnir verða meira eins og grunnfyrirtæki sem veita fjármagn á meðan það getur orðið veruleg fjölbreytni í ýmis konar fjármálaþjónustu sem nýtir þetta fjármagn og nýtir bankareikningana inni hjá bönkunum.“

Heimabanki með reikningum frá mörgum bönkum

Gunnlaugur tekur dæmi um fyrirtæki sem býður upp á alhliða netbankaþjónustu. „Þar sem þú getur notað alla bankareikningana þína og fengið öll yfirlit, millifært fram og til baka og svo framvegis en þessi netbanki sé ekki á vegum neins banka heldur veiti yfirlit yfir allt þitt í öllum bönkum. Ef þú ert í viðskiptum við banka í dag þá talar þú kannski bara við bankann þinn um lán en þarna inni á ákveðnum vettvangi, þar sem þú ert búinn að safna saman öllum bankaupplýsingum ertu í viðskiptum við eitthvert fyrirtæki sem gefur sig út fyrir að hugsa um þinn hag og finna bestu tilboð fyrir þig hvar sem þau kunna að vera. Það er tiltölulega líklegt að samkeppnin muni þá aukast í því umhverfi og það muni ógna bönkunum.“

Þeir sem framleiddu svipur fóru á hausinn

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Bíll af fyrstu kynslóð.

Það eru miklar breytingar framundan en eru bankarnir tilbúnir? Er hætt við að þeir fari halloka? „Það er mikil óvissa framundan og þetta getur orðið mjög erfitt fyrir þá, það er eins og alltaf er þegar svona mikið tímabil breytinga kemur þá tapa þeir sem stinga höfðinu í sandinn en þeir sem reyna að taka þátt í breytingunum á uppbyggilegan hátt þeir hagnast þá frekar ef þeir geta breytt þessu í mikið tækifæri. Það er gaman að taka dæmi af því þegar bíllinn kom fyrst á markað. Þá voru ýmis fyrirtæki sem höfðu verið að framleiða hestvagna sem gátu áfram selt boddí á bílana, það voru fyrirtæki sem framleiddu dekk á hestvagna sem fóru þá að framleiða dekk á bílu og það er frægt að þeir sem framleiddu svipur, þeir urðu gjaldþrota. Það skiptir máli að vera með á nótunum og finna hvað maður hefur fram að færa í hinu nýja umhverfi og bankarnir eru í rauninni, með því að vera nú þegar að veita fjármálaþjónustu nú þegar í góðri aðstöðu til þess að mörgu leyti. Hins vegar eru þeir dálítið flóknar skepnur, því þeir veita margs konar þjónustu. Þeir eru með ákveðinn fortíðarvanda ef ég má nota það orð, þó það sé kannski ónákvæmt, vegna þess að þeir eru með yfirbyggingu sem er frá eldri tíð og tekur þá dálítinn tíma að byggja hlutina upp á nýtt. Það kann að vera að lítil, sprækari, ný fyrirtæki muni gera þeim skráveifu.“ 

Neytendur græða en eykst flækjustig? 

Hann segir að markaðurinn verði fjölbreyttari, en það sé þó líka líklegt að það verði til ákveðnir alþjóðlegir risar. Í Hvítbókinni segir að breytingarnar eigi eftir að auka ábata neytenda, verð á fjármálaþjónustu lækki og fólk þurfi ekki að eyða sama tíma og fyrirhöfn í fjármálastúss. En eykur þetta ekki líka flækjustigið? Þú ert kannski með eitt fyrirtæki fyrir bílalán, netbanka hjá öðru  húsnæðislán hjá þriðja, greiðslumiðlun hjá fjórða. Gunnlaugur segir að fólk sé oft tilbúið að greiða þóknun fyrir að hafa fjármálin einföld og allt á einum stað. Líklega komi líka fram fyrirtæki sem bjóði gervigreind sem aðstoði þá neytendur sem það vilja í þessu nýja umhverfi. „Gervigreind sem kemur með litlar ábendingar um hvað maður geti gert betur í fjármálum, getur starfað með alla þessa valkosti og einfaldað fyrir þá sem það kjósa. Svo eru aðrir neytendur sem vilja hafa umsjón með öllu sjálfir,“ segir Gunnlaugur. 

Aukin hætta á tölvuárásum

Það hefur mikið verið talað um mikilvægi þess að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu og endurheimta traust. Í hvítbók stjórnvalda kemur fram að með nýja fyrirkomulaginu, þar sem fjölmörg fyrirtæki geta með samþykki neytenda fengið aðgang að upplýsingum úr bönkum, aukist hætta á net- og tölvuárásum. Það er eitthvað sem þyrfti að hafa í huga og vinna með. 

Ákveðin sylla og samstarf

Gunnlaugur býst við aukinni alþjóðlegri samkeppni, múrar á milli landa verði brotnir niður í auknum mæli. Það verði erfitt að vera með alhliða bankaþjónustu á ákveðnu svæði, bankar verði ekki skilgreindir eftir svæðum, sem sænskir, norskir eða íslenskir heldur eftir tegundum þjónustu sem þeir veita, sérhæfðrar þjónustu. „Ég held að í því felist mögulega tækifæri fyrir íslenska banka, að finna einhverjar syllur, eitthvað sem þeir eru góðir í eða geta orðið góðir í, eða fundið einhvers konar samleið með íslenskri fjártækni sem sækir þá áfram almennt á fjármálamarkaðnum, sem svona hefur þá opnast á milli landa, þeir geti gert sér einhvernveginn mat úr því.“ 

Þegar starfa bankarnir með fjártæknifyrirtækjum í einhverjum mæli.