Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjarstæðukennt að vald yfir sæstreng tapist

18.11.2018 - 22:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðarmála, segir að það sé fjarstæðukennt að einhverjir aðrir en Íslendingar ákveði hvort leyfi verði veitt fyrir sæstreng eða ekki. Þetta segir hún í Twitter-færslum þar sem hún fer yfir málflutning þeirra sem talað hafa gegn innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

„Því hefur verið haldið fram að þriðji orkupakkinn feli í sér afsal á forræði yfir auðlindinni. Hið rétta er að hann varðar ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum né hvort þær séu nýttar og í hvaða tilgangi,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Andstöðu hefur gætt við þriðja orkupakkanum innan Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Miðflokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði til dæmis í Silfrinu í dag að hann óttaðist að Íslendingar hefðu ekki lengur um það að segja hvort sæstrengur yrði lagður til Evrópu ef þriðji orkupakkinn yrði tekinn upp. 

Þessum sjónarmiðum og öðrum um fullveldisafsal hafnar Þórdís Kolbrún alfarið í röð Twitter-færslna sem hún ritaði í gærkvöld. Hún sagði ekkert til í því að ákvarðanatöaka á orkumarkaði yrði færð til ACER, stofnunar á vegum Evrópusambandsins, enda væri þriðji orkupakkinn byggður á tveggja stoða kerfinu. Þá er gert ráð fyrir stofnunum bæði EFTA og ESB-megin í EES-samningnum.