Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjárskortur sviptir flóttabörn menntun

Mynd með færslu
 Mynd: UNICEF
Innan við helmingur þeirra rúmlega sjö milljóna barna sem eru á flótta í heiminum ganga í skóla. Heimsbyggðin er að bregðast flóttabörnum á skólaaldri með því að neita þeim um tækifærið til að byggja upp þá hæfni og þekkingu sem þau þurfa til að fjárfesta í framtíð sinni, segir stjórnandi flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

Alls eru um 7,1 milljón barna á skólaaldri á flótta undan stríðum og öðrum hörmungum í heiminum. Af þeim hljóta um 3,7 milljónir enga menntun. Í nýrri úttekt flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er greint frá því að aðeins 63 prósent flóttabarna á grunnskólaaldri hljóta menntun, miðað við 91 prósent á heimsvísu. Um 84 prósent barna á gagnfræða- og menntaskólaaldri hljóta menntun í heiminum, en innan við fjórðungur barna á flótta nýtur þeirrar heilli. Aðeins örfá sækja sér frekari menntun, eða aðeins þrjú prósent, miðað við 37 prósent ungmenna á heimsvísu. 

Stofnunin segir fjárskort helst valda því að tækifærum barna á flótta til mennta fækki eftir því sem þau eldast. Því er kallað eftir aðstoð stjórnvalda, einkageirans, menntastofnana og fjársterkra samtaka og einstaklinga við að efla námsmöguleika flóttabarna á þessum aldri.

Filippo Grandi, stjórnandi flóttamannastofnunar SÞ, segir nauðsynlegt að fjárfesta í menntun flóttamanna. Annars alist upp ósjálfstæð kynslóð sem geti ekki fundið vinnu við hæfi eða orðið fullgildir samfélagsþegnar. 

Stofnunin stefnir að því að reisa og gera upp skólahúsnæði, þjálfa kennara og veita flóttafjölskyldum fjárhagsaðstoð svo börn þeirra geti sótt menntun. Auk þess er kallað eftir því í skýrslu stofnunarinnar að flóttamenn fái að læra innan þeirra menntastofnana sem fyrir eru í þeim löndum sem þeir dvelja.
Stuðningur við eflingu menntunar flóttabarna á gagnfræða- og menntaskólaaldri verður helsta umræðuefni ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni flóttamanna í desember. Grandi segir skóla vera helstu von flóttamanna um annað tækifæri í heiminum. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV