Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjármögnun Play hefur dregist á langinn

01.12.2019 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Fjármögnun nýja flugfélagsins Play hefur gengið hægar en forsvarsmenn félagsins höfðu vonað. Sölu flugmiða sem átti að hefjast um mánaðamótin hefur verið frestað. Vonast er til að miðasalan hefjist fyrir áramót.

Þegar Arnar Már Magnússon, forstjóri nýja flugfélagsins Play, kynnti áform hóps fyrrverandi starfsmanna WOW í byrjun nóvember stóð til að hefja miðasölu strax um mánaðamót nóvember og desember. Í gær birtist svo tilkynning frá Play um að það myndi ekki takast.

„Það er náttúrlega með svona fyrirtæki að það þurfti að huga að mörgu og þetta tók aðeins lengri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir María Margrét Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi Play. „Og því þurfti að endurskoða tímarammann sem við höfðum áður gefið okkur.“

Ekki flogið fyrr en fjármagnið er tryggt

María Margrét segir erfitt að gefa út hvenær miðasalan muni hefjast, en vonandi verði það fyrir áramót. Hún segir fjármögnun félagsins ganga mjög vel þó hún hafi dregist á langinn. Félagið muni ekki hefja flugáætlun fyrr en fjármögnun upp á sautján hundruð milljónir íslenskra króna hafi verið tryggð.

Arnar Már forstjóri sagði við kynninguna í nóvember að grunnfjármögnun félagsins hefði verið tryggð. Verðbréfafyrirtækið Íslensk verðbréf hefur svo haldið utan um viðbótarfjármögnun Play og biðlað til innlendra fjárfesta að leggja félaginu til fé.

Þurftu að laga sig að aðstæðum

Spurð hvort það hafi verið vanáætlun að gefa sér einn mánuð í að safna þessum peningum segir María Margrét: „Nei alls ekki. Þetta hefur náttúrlega staðið yfir í langan tíma. En við þurfum að laga okkur að aðstæðum og þetta tók sinn tíma.“

„Við ætlum líka að vanda okkur og gera þetta vel,“ segir hún. Flugfélagið mun ekki hefja flug fyrr en fjármagnið hefur verið tryggt. „Já, þett er allt í góðu ferli,“ segir María Margrét enn fremur.

Fjögur þúsund starfsumsóknir

Strax og flugfélagið var kynnt til leiks auglýsti það eftir starfsfólki. María Margrét segir að ráða eigi tvö til þrjú hundruð manns. Um fjögur þúsund umsóknir hafa borist sem verið er að vinna úr. Þessa dagana er verið að kalla fólk inn í viðtöl, þá helst flugliða og flugfólk.