Fjármögnun Drag Dad tryggð

Mynd með færslu
 Mynd:

Fjármögnun Drag Dad tryggð

24.07.2012 - 18:12
Markmið fjársöfnunar til að fjármagna heimildarmyndina Drag Dad, sem skýrt var frá í fréttum sjónvarps á laugardag, náðist nú í kvöld.

Björn Flóka Björnsson, kvikmyndagerðarmann í Bandaríkjunum, vantaði 16 þúsund dollara, um tvær milljónir króna, til að geta lokið við gerð myndarinnar og leitaði á náðir almennings í gegnum vefsíðuna Kickstarter. Þar geta kvikmyndagerðarmenn beðið fólk að gefa upphæð að eigin vali til að fjármagna verk í vinnslu.

„Drag Dad teymið er himinlifandi og satt að segja í hálfgerðu sjokki yfir þeim stuðningi sem við höfum fundið fyrir síðustu daga. Á síðasta sólarhringi höfum við fengið rúma 150 nýja stuðningsmenn úr öllum mögulegum áttum og er nú útlit fyrir að við munum komast eitthvað yfir markmið okkar þegar söfnunni lýkur,“ segir Björn Flóki en enn eru rúmir tveir sólarhringar þar til söfnuninni lýkur.

„Þeir fjármunir sem safnast yfir markmiðið munu nýtast í að styrkja gerð myndarinnar enn frekar, en 16.000 dollara kostnaðaráætlun okkar gerði ráð fyrir lágmarkskostnaði í öllum liðum.“

Björn segir að undanfarna daga hafi stór hópur ókunnugra lagt verkefninu lið en 511 bakhjarlar standa að baki upphæðinni sem hefur safnast frá 2. júlí.

„Hvatningur frá almenningi hefur verið sérstaklega áberandi þessa síðustu daga, en fjórir af hverjum fimm sem hafa nú stutt verkefnið er fólk sem við höfum engin persónuleg tengsl við. Þetta drífur okkur áfram í þessu öllu saman og gerir okkur vongóð um að við séum með í höndunum góða sögu sem getur náð til breiðs áhorfendahóps.“

Hann býst við að tökum á myndinni ljúki í september.

„Í kjölfarið hefst eftirvinnsla. Óvíst er svo hvenær eða hvar myndin verður gefin út, en venjan er með myndir af þessu tagi að reyna að komast inn á stórar alþjóðlegar kvikmyndahátíðir til að finna dreifingaraðila á myndinni. En við tökum bara eitt skref í einu og hlökkum mikið til að hefja tökur í Atlanta nú í sumar.“

Drag Dad er heimildarmynd um dragdrottninguna Tyru Sanchez, sem heitir réttu nafni James William Ross IV, en hann vann eina vinsælustu dragkeppni Bandaríkjanna sem Ru Paul, ein frægasta dragdrottning í heimi, stendur fyrir.

Ross eignaðist soninn Jeremiah með bestu vinkonu sinni, aðeins 17 ára gamall, og fjallar myndin um samband þeirra feðga.