Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjármálastjóri OR fékk áminningu fyrir áreitni

17.09.2018 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fjármálastjóri Orkuveitu Reykjavíkur fékk skriflega áminningu í starfi árið 2015 fyrir að hafa áreitt tvær samstarfskonur sínar kynferðislega. Óskað hefur verið eftir því að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar geri úttekt á vinnustaðamenningu fyrirtækisins.

Í fréttum klukkan sjö var sagt frá því að Þórður Ásmundsson, sem tilkynnt var á fimmtudag að tæki við sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, tæki ekki við starfinu vegna ásakana um alvarleg kynferðisbrot. Bjarna Má Júlíussyni framkvæmdastjóra hafði þá verið sagt upp vegna óviðeigandi framkomu við samstarfsfólk sitt. 

Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri Orkuveitunnar, fékk í október 2015 skriflega áminningu í kjölfar kvartana tveggja samstarfskvenna hans um kynferðislega áreitni á árshátíð fyrirtækisins. Í áminningunni segir að framkoma fjármálastjórans hafi verið með öllu óviðeigandi og óforsvaranleg og lýst sér meðal annars í beinum snertingum. Ingvar gekkst við því. Í áminningunni var skorað á Ingvar að bæta ráð sitt, ellegar verði hann rekinn. Ennfremur segir að það sé skýr og afdráttarlaus afstaða fyrirtækisins að forsenda áframhaldandi starfa hans sé háð því að hann leiti sér nú þegar lækninga í þeim tilgangi að fá bót meina sinna. Jafnframt er sett fram krafa um að hann hefji samtalsmeðferð hjá sérfræðingi sem Orkuveitan velji. Ingvar segir í bréfi til fréttastofu vegna málsins að hann hafi iðrast gjörða sinna æ síðan. Hann hafi strax farið í áfengismeðferð og leitað sér viðeigandi aðstoðar.

Í kvöld sendi Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar tilkynningu um að hann hafi óskað eftir því að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri., meðan þau mál sem komið hafa upp verði skoðuð. Stjórnarformaður Orkuveitunnar, Brynhildur Davíðsdóttir, sendi í kjölfarið tilkynningu um að þegar hafi verið óskað eftir því við Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gerð verði úttekt á vinnustaðamenningu fyrirtækisins. Stjórnin komi saman eins fljótt og auðið er og taki ákvörðun um ósk Bjarna.

Hildur Björnsdóttir og borgarfulltrúi og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sögðu í viðtali í Kastljósi í kvöld að það væri rétt ákvörðun hjá Bjarna að stíga til hliðar. Fréttastofa innti þær eftir viðbrögðum við áminningu fjármálastjórans.

„Maður heyrir að það sé talsverð starfsmannavelta og jafnvel meðal kvenna en svo fá karlmenn að halda sínum störfum og fá endalaus tækifæri innan samstæðunnar eftir brot sem þessi og það líst mér ekki á,“ segir Hildur.

„Ég held að við séum ekki búin að sjá fyrir endann á þessu, ég held að við séum að fá upp á yfirborðið núna fleiri og fleiri mál örugglega innan Orkuveitunnar og fleiri fyrirtækja sem eru af sama meiði. Hér hefur opnast ormargryfja og mér finnst mikilvægt að það sér tekið á henni af aga og yfirvegun,“ segir Þórdís Lóa.