Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fjármálastefna stjórnvalda samþykkt

06.04.2017 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Fjármálastefna stjórnvalda til næstu fimm ára var samþykkt á Alþingi nú rétt fyrir hádegi, með 30 atkvæðum gegn 27 atkvæðum. Afar ólík sjónarmið tókust á við atkvæðagreiðsluna.

 

 

Segja má að atkvæðagreiðslan hafi verið fyrsta prófmál ríkisstjórnarinnar sem nú hefur verið við völd í rétt tæpa þrjá mánuði, en hún hefur aðeins eins þingmanns meirihluta.

Þingmenn hafa tekist hart á um þessa fimm ára fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem lögð er fram í mikilli hagsveiflu, því vilji ríkisstjórnin sýna aðhald á sama tíma og útgjöld séu aukin, sérstaklega til velferðarmála. Stjórnarandstaðan segir þvert á móti að öll loforð um aukin framlög séu svikin í þessari stefnu.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, gagnrýndi útgjaldaþak stefnunnar þegar hún gerði grein fyrir sínu atkvæði. „Hér er mjög aðhaldssöm hægrisinnuð fjármálastefna á ferð þar sem um leið er ekki nægjanlega vissa fyrir því að stefnan skili þeim árangri sem til er ætlast.“

„Við teljum að þetta sé of aðhaldssöm stefna við teljum að hún sé sýni athafnaleysi sem er líka pólitík hægrimennskunnar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins. 

„Þessi stefna staðfestir svik við kosningaloforð flokkanna sem gefin voru í haust hún afhjúpar líka flokkana tvo Bjarta framtíð og Viðreisn sem hafa nú endanlega fellt grímuna og birtast bara sem klassískir hægri flokkar,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. 

„Við förum hérna hóflega millileið þar sem að tekjunum er stillt í hóf í efnahagslegum tilgangi en á sama tíma styðjum við við mikla aukningu í útgjöldum sem á sér stað árið 2017,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. 

„Eitt sem við ættum að minnsta kosti að vera sammála um það er að ef eitthvað er þá er þessi fjármálastefna mögulega ekki nægjanlega aðhaldssöm miðað við aðstæður,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.  

Þingmönnum var heitt í hamsi við atkvæðagreiðsluna og sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, að stefnan yrði ekki langlíft plagg og gagnrýndi stjórnarflokkana fyrir að hrúga inn varaþingmönnum fyrir atkvæðagreiðsluna, eins og hann komst sjálfur að orði.

 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV