Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjármagna dómsmál gegn smálánafyrirtækjum

14.08.2019 - 22:12
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Stjórn VR samþykkti í kvöld að skera upp herör gegn smálána- og innheimtufyrirtækjum og fjármagna dómsmál gegn þeim og jafnvel bönkum sem innheimta lánin. Stéttarfélagið hyggst verða fjárhagslegur bakhjarl í baráttunni gegn smálánum og aðstoða þá sem hafa lent í vandræðum vegna lánanna.

„Við munum í samstarfi við neytendasamtökin vera með teymi hjá Neytendasamtökunum sem mun taka á móti fyrirspurnum frá fólki og freista þess að veita því fólki lögfræðiaðstoð sem hefur tekið þessi lán sem og að stefna þeim fyrirtækjum, meðal annars Sparisjóði Strandamanna og Almennri innheimtu, og skoða hver réttarstaða þessa fólks er gagnvart þessum fyrirtækjum og þá bönkunum sem innheimta án athugasemda,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Ragnar vill ekki segja hversu mikið fjármagn verði sett í baráttuna gegn smálána- og innheimtufyrirtækjunum. Hann segir þó að upphæðin hlaupi á milljónum og stjórnin verði kölluð saman aftur ef þess gerist þörf að bæta í. VR sé gríðarlega stórt félag með sjóði sem nema tugum milljarða.

„Málið er mjög alvarlegt. Staða þessara hópa er mjög alvarleg. Það er tími til kominn að félög eins og VR, stéttarfélag stórt og öflugt, og vonandi fleiri stéttarfélög snúi bökum saman við neytendasamtökin og fari í þetta þjóðþrifamál vegna þess að löggjafinn hefur algjörlega brugðist og þetta er ekki í fyrsta skipti sem að VR tekur upp hanskann og fer í skítverk löggjafans,“ segir Ragnar