Fjárlosun - hvað ætli það sé?

Mynd: EPA / EPA

Fjárlosun - hvað ætli það sé?

20.07.2015 - 15:38

Höfundar

Stefán Gíslason fjallaði um fjárlosun í pistli sínum í Samfélaginu.

Pistill Stefáns.

 

Á síðustu mánuðum hefur hugtakið fjárlosun nokkrum sinnum borið á góma í Samfélaginu. Nú kunna einhverjir að halda að fjárlosun sé sérstök aðgerð til að losa sig við peninga sem maður er hættur að nota, enda væri slík tiltekt út af fyrir sig ekki svo fráleit í ljósi frétta um að eitt prósent mannkynsins eigi 48% af öllum auðæfum í heiminum. En hér er ekki átt við þess konar tilfæringar, heldur er fjárlosun einfaldlega andheiti við fjárfestingu. Fjárlosun er sem sagt það sem á ensku er kallað divestment, þ.e.a.s. sú aðgerð fjárfesta að losa um eignir sínar í tilteknum fyrirtækjum eða atvinnugreinum. Sú tegund fjárlosunar sem mest hefur verið til umræðu í Samfélaginu snýst um að losa um eignir í olíufélögum og öðrum fyrirtækjum sem sýsla með jarðefnaeldsneyti og kaupa þess í stað hluti í fyrirtækjum sem einbeita sér að þróun endurnýjanlegra orkugjafa.

Af skýrslum Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar má ráða að ef takast á að halda meðalhitastigshækkun á jörðinni innan við 2°C miðað við það sem var við upphaf iðnbyltingar, megi ekki brenna á þessari öld nema um fjórðungi þess eldsneytis sem talið er liggja í þeim olíulindum, gaslindum og kolanámum sem þegar eru þekktar. Hinir þrír fjórðu hlutarnir verða samkvæmt því að liggja óbrenndir í jörðu um langa framtíð ef ekki á illa að fara, svo ekki sé minnst á þær lindir sem enn á eftir að finna. Það eru nefnilega allar líkur á að illa fari ef meðalhitastigið hækkar um meira en þessar tvær gráður. Þessir þrír fjórðu hlutar er það sem kallað hefur verið „óbrennanlegt kolefni“.

Fyrirtæki í olíu-, gas- og kolaiðnaði byggja efnahagsreikninga sína að nokkru leyti á ætluðu verðmæti þekktra auðlinda sem þau ráða yfir en eiga eftir að vinna, þar á meðal á óbrennanlegu kolefni. Þessi staða er ekki ósvipuð því sem var í fjármálafyrirtækjum fyrir hrun, en þau færðu einmitt hluta af væntanlegum framtíðartekjum sínar til eigna og stækkuðu þannig efnahagsreikninginn og héldu verði hlutabréfa uppi. Þegar menn áttuðu sig á að verðmatið var óraunhæft sprakk bólan og verð hlutabréfa hrundi.

Erfitt er að fullyrða hvort sú fjárlosun sem á sér stað í kola- og olíugeiranum um þessar mundir sé upphafið að flótta fjárfesta sem hafa áttað sig á að kolefnisbólan muni springa fyrr en síðar. Í raun getur fjárlosunin átt sér fjórar skýringar. Flóttinn úr kolefnisbólunni er aðeins ein þeirra. Önnur skýring er einfaldlega sú að meiri ávöxtun bjóðist annars staðar, t.d. í sólarorkugeiranum þar sem vöxturinn hefur verið 40-50% á ári síðustu 10-15 ár, mælt í samanlögðu uppsettu afli sólarorkuvera. Þriðja skýringin er umhverfisvitund fjárfesta sem vilja að peningarnir þeirra nýtist annars staðar en í kola- og olíugeiranum, jafnvel þótt þeir telji þeim þokkalega óhætt þar. Og fjórða skýringin er mikill þrýstingur frá umhverfisverndarsamtökum og almenningi sem krefst þess að kolefnið verði látið liggja óbrennt í jörðu til að afstýra hamförum vegna loftslagsbreytinga.

 

Samkvæmt upplýsingum The Guardian hafa rúmlega 220 stofnanir ákveðið að losa um hluta af fjárfestingum sínum í kola- og olíugeiranum. Í þessum hópi eru m.a. lífeyrissjóðir, háskólar, trúfélög og sveitarfélög. Fjárfestar eru nefnilega ekki bara miðaldra hvítir karlmenn í svörtum jakkafötum, sem hafa helgað stóran hluta ævinnar einhvers konar fjárhættuspili með efnisleg auðæfi sem þeim hefur tekist að ná til sín með aðstoð forfeðra sinna eða skattaskjóla. Í þessum hópi er líka fjöldinn allur af sjóðum og stofnunum sem hafa það eina hlutverk að ávaxta lífeyri fólks með ábyrgum hætti og búa þannig í haginn fyrir framtíðina.

Meðal þeirra aðila sem hafa losað um fjármagn í kola- og olíugeiranum á síðustu mánuðum má nefna Rockefellerfjölskylduna sem ákvað síðasta haust að losa sig við því sem næst öll hlutabréf sín í olíu- og kolaiðnaðinum og fjárfesta þess í stað í grænni orku. Þetta vakti töluverða athygli, ekki síst í ljósi sögunnar, en Rockefeller auðurinn var einmitt byggður á olíugróða frá fyrstu tíð, alveg frá því að forfaðirinn John Rockefeller stofnaði félagið Standard Oil seint á 19. öldinni. Þá má nefna digra sveitarsjóði borga á borð við San Francisco, Seattle og Osló, að ógleymdum norska olíusjóðnum sem mun vera stærsti ríkiseignasjóður heims. Þar á bæ var nýlega ákveðið að draga sig út úr eignarhaldi á 114 fyrirtækjum í kolageiranum víða um heim. Sú ákvörðun er talin vera stærsta einstaka skrefið sem tekið hefur verið á heimsvísu til að draga úr svörtum fjárfestingum, eins og þessar fjárfestingar eru gjarnan kallaðar. Reyndar fer því fjarri að olíusjóðurinn sé hættur að fjárfesta í olíu, en þetta er þó veruleg fjárlosun hvernig sem á það er litið, enda snýst ákvörðunin um breytta ráðstöfun auðæfa upp á rúmlega 8 milljarða Bandaríkjadala sem samsvarar vel yfir 1.000 milljörðum íslenskra króna. Þá má líka nefna að enska kirkjan hefur losað fjármagn sem hún átti í kolaiðnaðinum og Alþjóðakirkjuráðið hefur ákveðið að snúa alfarið baki við fjárfestingum í jarðefnaeldsneyti. Þau ágætu samtök hafa um hálfan milljarð kristinna manna innan sinna vébanda. Lútherska heimssambandið ákvað fyrir nokkrum vikum að feta sig inn á sömu braut og enn má nefna háskólana í Glasgow, Sýrakús, Stanford og Lundi, svo dæmi séu tekin.

 

Auðvitað eru menn ekki á eitt sáttir um það hversu skynsamlegt eða nauðsynlegt það sé að selja hlutabréf í fyrirtækjum í jarðefnaeldsneytisgeiranum. Sumir hafa hafnað slíkum hugmyndum alfarið og sagt að þær séu ónauðsynlegar og óskynsamlegar og aðrir hafa farið varlega í sakirnar og aðeins tekið afstöðu gegn fjárfestingum í þeim hluta greinarinnar sem mengar mest og þannig byrjað á að selja hlutabréf í fyrirtækjum sem sýsla með kol og tjörusand.

Enn sem komið er bendir fátt til að fjárlosun í kola- og olíufyrirtækjum sé farin að hafa áhrif á verð hlutabréfa. Hér hafa að vísu verið nefndar háar upphæðir, en enn sem komið er þessi grein gríðarlega sterk og enn sem komið er er fjárlosunin bara lítið brot af heildarviðskiptunum. Hins vegar benda rannsóknir sérfræðinga við Háskólann í Oxford til að fyrirtækin í þessari grein séu þegar farin að tapa orðstír sínum og að þannig hafi staða þeirra versnað þrátt fyrir að það endurspeglist ekki enn í verði hlutabréfa.

 

Það þarf ekki flókna röksemdafærslu til að sýna fram á tilvist kolefnisbólunnar. Hvort þau dæmi sem hér hafa verið nefnd séu vísbendingar um að bólan sé byrjuð að springa skal hins vegar ósagt látið. Blöðrur eiga heldur ekki vanda til að springa smátt og smátt. Þær springa allt í einu og þá bregður mörgum við, jafnvel þótt sprengingin hafi svo sem verið fyrirsjáanleg.