Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fjárlög og kjararáð væntanlega efst á baugi

05.12.2016 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Ægir Þór Eysteinsson - RÚV
Forystumenn stjórnmálaflokkanna komu saman til fundar í stjórnarráðinu klukkan 11 í morgun til að ræða hvernig störfum þingsins verði háttað. Kjósa þarf í bráðabirgðanefndir þingsins og koma sér saman um hver verði forseti Alþingis því enn hefur ekki gengið að mynda ríkisstjórn. Þingflokksformaður Pírata og formaður Sjálfstæðisflokksins eru sammála um að forgangsverkefni þingsins fyrir áramót auk fjárlagafrumvarpsins séu kjararáð og lífeyrissjóðsfrumvarpið.

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði fyrir fundinn í morgun að varla gæfist svigrúm fyrir fleiri mál og hún ætti alveg eins von á því að þingið yrði að störfum fram á síðasta dag. „Það fer alveg eftir því hversu vel úr garði gert þetta fjárlagafrumvarp er.“

Hún segir að forgangsverkefni þingsins fyrir áramót auk fjárlaga eigi að vera kjararáð og að sameina lífeyrissjóðskerfin. Ekki sé mikið meira svigrúm fyrir fleiri mál en þessi þrjú. 

Píratar eru með stjórnarmyndunarumboðið og Birgitta á von á því að viðræðurnar um myndun fimm flokka stjórnar verði óformlegar til að byrja með í dag. „Ef vel tekst til gætum við farið í formlegar.“ Hvort það gerist í dag vildi hún þó ekki segja til um.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að fjárlagafrumvarpið sem kynnt verður á morgun verði gott - það séu góðir tímar í íslenskum ríkisbúskap. Hann segir jafnframt að það ætti ekki að koma neinum á óvart því það byggist á ríkisfjármálaáætlun sem samþykkt var í sumar. Mestur vöxtur á útgjaldahliðinni verði til almannatryggingakerfisins.

Bjarni á ekki von á neinum sérstökum átökum - þetta verði hefðbundin umræða um breytingar og forgangsröðin. „Það sem er að í umræðunni er að menn horfast ekki í augu við staðreyndir hversu mjög er búið að teikna upp vöxt útgjalda á næstu árum. Líklega er þetta það frumvarp sem er með mestan raunvöxt útgjalda til rekstrar ríkisins af þeim sem hafa komið fram í áratugi.“ Engu að síður snúist umræðan um að það þurfi að auka útgjöld.

Bjarni segir að tal um að staða ríkissjóðs sé ekki jafn góð þýði einfaldlega menn séu að vakna við það að það sé ekki innistæða fyrir kosningaloforðunum sem þeir gáfu fyrir kosningar. 

Bjarni er sammála Birgittu að leysa þurfi lífeyrissjóðsmálið - leggja þurfi frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda aftur fram og það væri mikill skaði ef ekki tækist að afgreiða það mál. Hann er einnig sammála um að þingið þurfi að ræða kjararáð en í aðeins víðara samhengi - til að mynda hvort það ættu að vera þessar aukagreiðslur. Slíkar breytingar gætu vegið á móti ákvörðun kjararáðs. „Kjararáð er hálfgerður dómstóll og ég hef lengi talað fyrir því að láta kjararáð í friði en gefa því líka skýr skilaboð.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV