Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fjárlaganefnd kannar áhrif SpKef

10.06.2012 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjárlaganefnd Alþingis ætlar að kanna hvaða áhrif 25 milljarða reikningur vegna SpKef hefur á skuldastöðu ríkisins og áætlanir næstu ára. Samtök stofnfjáreigenda sjóðsins ætla að höfða mál gegn fyrrverandi stjórnendum hans. Kostnaðurinn lendir á skattgreiðendum, segir formaður fjárlaganefndar.

Fjárlaganefnd kannar áhrif SpKef á skuldastöðu ríkisins. Allt stefnir í að kostnaður íslenska ríkisins vegna SpKef verði í kringum 25 milljarða króna. Til að setja þá tölu í samhengi væri hægt að reka Háskóla Íslands í næstum tvö og hálft ár fyrir sömu fjárhæð. 

„Við verðum lengi að bíta úr nálinni með hrunið, þetta er hluti af innistæðutryggingunum sem var gefin yfirlýsing um við hrun og hluti af neyðarlögunum. Og við erum enn að takast á við það á Íslandi," segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

Hún telur að nefndin muni bregðast við þessum tíðindum. „Ég hef þegar óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að við fáum minnisblað um hugsanleg áhrif á skuldastöðu, niðurstöðu ársins 2011, yfirstandandi fjárlög og áætlanir næstu ára. Var gert ráð fyrir þessum peningum í fjárlögum? Í fjárlagafrumvarpinu 2012 var farið yfir þann óvissukostnað sem væri vegna SpKef, það gæti verið kostnaður á bilinu 13 til 30 milljarðar. Nú hefur komið í ljós að sá kostnaður er 19 milljarðar auk vaxtakostnaðar. Þannig að það lá alltaf fyrir að þarna yrði kostnaður en hann var auðvitað meiri en ég hefði vonað," segir hún.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafa óskað eftir því að nefndin taki mál SpKef fyrir. Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, sagði í samtali við fréttastofu í dag, að það verði gert eins fljótt og auðið er. Þá hafa Samtök stofnfjáreigenda Sparisjóðsins í Keflavík falið lögmanni sínum að hefja undirbúning að málaferlum gegn fyrrverandi stjórnendum sjóðsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á það í hádegisfréttum útvarps að kostnaður ríkisins vegna SpKef slagi hátt í árlegan rekstrarkostnað Landspítalans. Milljarðarnir 25 lendi á skattgreiðendum. Sigríður segir það líklegast rétt.

„Hrun íslenska fjármálakerfisins hefur lent á íslenskum skattgreiðendum. Það er hin sorglega saga þeirra fjárglæfra sem þar fengu að eiga sér stað," segir hún.