Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjárlagafrumvarpið betra en búist var við

13.09.2018 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjárlagafrumvarpið er betra en búist var við að mati forstjóra Landspítalans. Þá hjálpi það spítalanum að heilsugæsla verði efld og auknu fé varið í ný hjúkrunarrými. Reksturinn á næsta ári verði þó erfiður vegna manneklu.

Ríkisstjórnin hyggst auka framlög til heilbrigðismála um tæpa þrettán milljarða króna á næsta. Í fjárlagafrumvarpinu kemur enn fremur fram að verja eigi rúmum sjö milljörðum til uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Framlög til sjúkrahúsþjónustu verða aukin um tvo og hálfan milljarð króna. Hvernig líst Páli Matthíassyni forstjóra Landspítalans á fjárlagafrumvarpið.

„Okkur líst svo sem þokkalega á það. Við sjáum að þarna er sett fé til uppbyggingar Landspítala sem er fagnaðarefni. Þetta er flókið verkefni. Það er fullur skilningur og stuðningur við það hjá stjórnvöldum og það er mjög mikilvægt. Varðandi reksturinn þá er ánægjulegt að sjá að það hefur verið tekið tillit til ábendinga okkar og gagna um raunvöxt starfseminnar ár frá ári. Það er eitthvað sem helst í hendur við líffræðilegar breytingar, fyrst og fremst öldun þjóðarinnar og það er mjög mikilvægt. Við sjáum líka að það er verið að verja fé í aukna göngudeildarstarfsemi. Við fáum áfram góða fjárveitingu til viðhalds húsa og tækjakaupa. Það er ómetanlegt. Og síðast en ekki síst er það mönnunin, segir Páll.

Páll segir að bent hafi verið á að skortur á hjúkrafræðingum hafi orðið til þess starfsmenn þurfi að vinna meiri yfirvinnu en ella og það sé aðalskýring á halla spítalans. Unnið sé að breytingum á vinnuskipulagi.

„Það kostar hins vegar og þar kemur skilningur stjórnvalda fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þetta er það sem við sjáum jákvætt þarna en hins vegar burðust við ennþá með hlass Hrunsins. Í Hruninu var skorið mjög mikið niður,“ segir Páll.

Páll segir það jafnframt hjálpa Landspítalanum að verja eigi auknu fé til reksturs nýrra hjúkrunarrýma og framlög til heilsugæslunnar séu aukin. Þau fara að miklu leyti til í að efla geðheilbrigðisþjónustu. Páll segir að næsta ár líti betur út fyrir Landspítalann í fjárlagafrumvarpinu en það gerði í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Sem er gott en það er samt alveg ljóst að reksturinn verður áskorun fyrst og fremst vegna mönnunarvanda,“ segir Páll.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV