Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjarðarheiðin lokuð fjórða daginn í röð

02.03.2020 - 07:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Áfram verður hvasst á landinu í dag samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Vetrarfærð er í öllum landshlutum. Vegurinn yfir Fjarðarheiði, sem liggur á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar, er enn lokuð fjórða daginn í röð. Mikill snjór er á heiðinni og mokstur mun taka langan tíma. Ólíklegt er að vegurinn opni fyrir hádegi.

Bæjarstjóri Seyðisfjarðar, Aðalheiður Borgþórsdóttir, sagði í samtali við fréttastofu í gær að það tæki á sálartetrið að komast ekki leiðar sinnar. Þá voru björgunarsveitir rúma sjö tíma að koma sjúklingi yfir ófæra heiðina á laugardag.Heiðin er enn lokuð. Þarna er mjög mikill snjór og mokstur mun taka langan tíma. Ekki er líklegt að vegurinn opnist fyrir hádegi.

Víðast hvar er verið að kanna færð og hreinsa vegi eftir nóttina. Lokað er um Mývatns- og Möðrudalsöræfi og nokkuð stífur vindur er á köflum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Þá er sérstaklega hvasst í Hvalfirði. 

Nýjar upplýsingar um stöðuna á vegum landsins berast þegar líður á morguninn en á vef Vegagerðarinnar má fylgjast vel með stöðu mála.