Fjáraukalög valdi vonbrigðum

12.11.2014 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Forstjóri Landspítalans segir það vonbrigði að Landspítalinn hafi ekki fengið aukið fjármagn í fjáraukalögum til að sinna bráðaþjónustu, á sama tíma og Sjúkratryggingar Íslands fái rúmlega milljarð króna.

Í frumvarpi fjármálaráðherra að fjáraukalögum sem lagt var fram á Alþingi fyrir helgi, er ekki gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til Landspítlans á þessu ári. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, er vonsvikinn en segir mestu máli skipta á að spítalinn fá aukið fé á næsta ári.

„Varðandi fjáraukann þá eru það vonbrigði að við fengum ekki eitthvað,“ segir Páll. „Við höfum höfum fært fyrir því rök og komið með tölur því til stuðnings að álag hefur aukist og við hefðum gjarnan viljað sjá að því væri mætt með einhverjum hætti í fjáraukalögum.“

Tilgangur fjáraukalaga er að mæta óvæntum útgjöldum ríkissjóðs. Landspítalinn er kominn meira en milljarð fram úr fjárheimildum á þessu ári. Páll undrast það sem hann kallar sérkennilega forgangsröðun.

„Svo dæmi sé tekið þá fá Sjúkratryggingar Íslands rúmlega milljarð í fjáraukalögum og það er þá væntanlega fé sem er að fara í valkvæða starfsemi og utan spítalaþjónustu,“ segir Páll. „Á sama tíma fær Landspítalinn sem er að sinna bráðaþjónustu ekki neitt fé í viðbót. Það sýnir kannski þann vanda sem að vissu leyti er í fjármögnunarmódeli, sem getur valdið sérkennilegri forgangsröðun á stundum.“