Fjallkonan fletti börn sín vopnum

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons

Fjallkonan fletti börn sín vopnum

16.06.2017 - 17:16

Höfundar

Í dag eru 100 ár síðan Stephan G. Stephansson heimsótti ættjörðina í fyrsta og eina sinn. Hann flutti vestur um haf, til Kanada, ásamt fjölskyldu sinni árið 1873, þá tæplega tvítugur. Í kvæði Stephans Fjallkonan, til hermannanna sem heim koma er ímynd Fjallkonunnar ögrað. Hún er Ísland holdi klædd og kemur fram við hátíðleg tækifæri en færir vesturíslenskum hermönnum, sem snúa aftur úr fyrri heimsstyrjöld, köld skilaboð.

Fjallkonan, til hermannanna sem heim koma

Mér hrynja tár um kinnar, mér hrekkur ljóð af vör,
við heimkomuna ykkar úr slíkri mæðuför,
með skarð í hverjum skildi, með bróðurblóð á hjör.

Þann allra stærsta greiða – en vildarlaust – mér vann,
sá vopnum fletti börnin mín, og sátt er ég við hann!
Um gest minn síðan óhrædd er og hult um heimamann.

En vei sé þeim! og vei sé þeim, sem véla knérunn minn,
og vega blindra höndum í grannaflokkinn sinn,
eins hermilega og Höður, til óráðs auðsvikinn!

Minn frið til þeirra er féllu. Þú kyrrð og kös þá geym!
Og Kains-merki leyndu undir blóðstorkunni á þeim.
En að fá þá minni-menn, sem heimtast aftur heim,
er hugarraun mér þyngst.

Hult um heimamann

Kvæðið var ort árið 1917, fyrir einni öld. Fjallkonan ávarpar vesturíslenska hermenn sem snúa heim til Kanada eftir fyrri heimsstyrjöld og hún harmar skörð í skjöldum og bróðurblóð á hjör. Hún gleðst yfir því að ættjörðin sé vopnlaus, gestir hennar og heimamenn geta óhultir verið á Íslandi. Fjallkonan fordæmir upphefð þeirra sem sneru aftur úr stríðinu og voðaverkin sem þeir frömdu undir hetjuyfirskini.

Höfundurinn uppskar fyrir þetta mikla heift vestra, Vestur-Íslendingum þótti andstyggilega ort og vegið að hetjudáð hermannanna. Dýrð og glæsibragur píslarvottanna þótti að engu hafður og í umsögn um kvæðið í Lögbergi frá 1920 segir: „Vér munum ekki eftir að hafa séð meiri andstyggð á prenti en þetta, hvorki fyrr né síðar, og höfum verið að hugsa um hvernig sá maður væri innanbrjósts sem slíkar hugsanir gætu fæðst hjá.“

Hugarraun mér þyngst

Kvæðið var birt í Vígslóða árið 1920, eftir að stríðinu lauk að fullu. Magnús Jónsson fjallaði um Vígslóða í Eimreiðinni 1921 og virðist hafa deilt skoðun skáldsins og segir að ófriðinn mætti kalla „grátbroslega vitfirringu, þar sem fáeinir menn tefldu milljónum manna eins og peðum á borði til að sóa fémætum heimsins og ávöxtum menningarinnar, þar til stríðið sjálft tekur völdin og heldur sinn gang án þess að nokkur ráði við“.

Stephan G. þótti jarðbundinn og hann talaði beint til jafningja sinna heima á Íslandi: „Innan um lýðskrum og þjóðarrembing stríðspostulanna, situr þessi íslenski bóndakarl vestur við Klettafjöll og horfir í gegn um merg og bein í þeim og sér innantómið í þeim og alla viðurstygð ófriðarins bera og nakta.“ „Því miður eru þeir víst of fáir, sem hafa jafn skarpt auga fyrir ógnum og andstygð styrjaldarinnar miklu eins og Stephan G. sýnir í Vígslóða [...] Vitrustu mennirnir eru jafnan svo langt á undan fjöldanum,“ sagði Magnús um Klettaskáldið.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hundrað ár frá Íslandsreisu Stephans G.