Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjallaskálar komnir í vetrardvala

23.09.2019 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Ferðafélag Íslands - RÚV
Á föstudag var flestum fjallaskálum Ferðafélags Íslands á hálendinu lokað. Skálavarsla er í þeim yfir sumartímann en á veturna er hún engin. Skálaverðir gegna mikilvægu hlutverki við að gæta öryggis ferðalanga og tryggja mannsæmandi umgengni á ferðamannastöðum.

Ferðafélag Íslands og deildir þess reka um 40 skála á hálendinu. Aðsókn í skálana er mest yfir sumartímann og hefur hún verið mun betri í sumar en vonir stóðu til. Búist var við samdrætti vegna falls WOW air, en að sögn Stefáns Jökuls Jakobssonar, umsjónarmanns skála Ferðafélags Íslands gekk sumarið mjög vel.

„Fjöldinn var sambærilegur við seinasta sumar. Það urðu ekki mikil afföll miðað við það sem maður bjóst við. Fólk fann sér aðrar leiðir til að koma til landsins. Það var þokkalega gott ástand á flestum sem gengu Laugaveginn. Samt sem áður þurftu skálaverðir á öllum Laugaveginum að aðstoða vanbúið göngufólk sem áttar sig ekki á því að það er að ganga leið sem er við norðurheimskautsbaug og er að fara í þúsund metra hæð þar sem von er á öllum veðrum,“ segir Stefán.

Vanmeta oft göngu um hálendið

Skálaverðir hafa þurft að koma fólki til aðstoðar, oft í samstarfi við hálendisvakt björgunarsveitanna. Oft og tíðum þurfi að koma fólki í skála eða til byggða, eftir því hversu illa fólk sé búið. Hálendisvakt björgunarsveitanna lauk í lok ágúst. Stefán segir marga vanmeta leiðina og ofmeta bæði eigin getu og þann búnað sem þeir leggi af stað með. 

„Það er illa skóað og ekki í regnheldum fatnaði og er að labba mikið í bómullarfatnaði, þannig að ef það gerir eitthvað veður þá hanga þau blaut það sem eftir er ferðarinnar,“ segir Stefán.

Skálavarsla kemur í veg fyrir slæma umgengni

Í vor var brotist inn í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi og fleiri skála. Óprúttnir og óboðnir gestir gengu hreint út sagt skelfilega um og skildu eftir sig rusl, óhreinindi og gengu örna sinna utan við skálann. Stefán segir að meðan verðir séu í skálunum sé umgengni yfirleitt mjög góð.

„Þetta var allt fyrir utan skálavarðatímabilið, svo við verðum ekkert vör við svona umgengni yfir sumartímann þegar við erum með verði í öllum skálum.  Það er raunverulega ósköp fátt sem við getum gert til að fyrirbyggja þetta eitthvað meira en það sem við gerum. Við erum ekki að fara að setja upp einhverjar eftirlitsmyndavélar eða þvíumlíkt. Við viljum meina að þetta hafi verið einstakt tilfelli einkennilegra aðila sem ganga svona um,“ segir Stefán.

Kominn tími á viðhald

Skálar Ferðafélagsins eru nokkrir farnir að eldast og kominn tími á viðhald. Stefán segir að til standi að byggja þá upp.

„Mörg húsin eru komin til ára sinna og það er á stefnuskrá okkar að halda áfram uppbyggingu og reyna að endurnýja elstu húsin sem allra allra fyrst. Þetta er kostnaðarsamt og Ferðafélagið byggir enn þá á gríðarlegri sjálfboðavinnu sem skilaði því að öll þessi hús eru til staðar í dag. Tekjulindirnar hafa ekki verið alveg til staðar á síðastliðnum tíu árum. Það er búið að reyna að taka peninga og leggja í uppbyggingu. Það mun skila sér í fleiri og betri skálum og endurnýjun á skálum, vonandi á næstu fimm til tíu árum,“ segir Stefán.