Fita stíflar skolphreinsistöð Skagamanna

17.04.2019 - 06:35
Akranes, Vesturland, H0fn, höfnin, sílóin, síló, Faxaflói.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Gríðarmikil fita, sem talin er koma frá niðursuðuverksmiðjunni Akraborg, stíflar nýlega skólphreinsistöð Veitna á Akranesi æ ofan í æ. Fréttablaðið greinir frá þessu. Þar er haft eftir Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna, að þvottavélar hreinsistöðvarinnar, sem er ekki orðin ársgömul, stíflist ítrekað af fitu sem berst frá matvælavinnslu á svæðinu. Er þar vísað til niðursuðuverksmiðjunnar Akraborgar, sem er einn stærsti framleiðandi niðursoðinnar þorsklifrar í heiminum.

Í samtali við blaðamann Fréttablaðsins segir Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, það ekkert leyndarmál að fitan komi frá Akraborginni, þótt forsvarsmenn verksmiðjunnar og Veitna greini á um hversu mikil fitan sé. Helgi segir að fitugildra hafi verið sett upp í fráveitukerfi verksmiðjunnar en galli í fráveitunni hafi orðið til þess að fitan komst framhjá gildrunni. Þá hafi Akraborgarmenn gripið til ráðstafana og sett upp hreinsibúnað, en það hafi bara ekki dugað til. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi