Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fiskur drapst hjá Klaustursbleikju

23.05.2011 - 10:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Nokkur hundruð kíló af bleikju drápust hjá fyrirtækinu Klausturbleikju á Kirkjubæjarklaustri vegna öskufallsins. Askan stíflaði þá ristarnar í tveimur kerum með þeim afleiðingum að það flæddi upp úr þeim, og bleikjan fór þar með upp úr kerunum.

Birgir Þórisson rekstrarstjóri hjá Klausturbleikju segir að þetta hafi gerst í þeim kerum þar sem smæsti fiskurinn var, og ristarnar þar af leiðandi fínni.


Alls eru fjörutíu til fimmtíu tonn af bleikju í stöðinni. Birgir segir að í nótt hafi askan í loftinu farið að aukast aftur og nú sé tveggja til tíu metra skyggni. Hann hafi því ekki haft tök á að huga að kerjunum síðan þá og viti því ekki hvort flætt hafi upp úr fleiri kerum.


 Birgir vonast til að það dragi úr öskufalli, þá verði líklegast hægt að bjarga einhverju af fiskinum.


Niðamyrkur var á Kirkjubæjarklaustri í morgun eins og sjá má á eftirfarandi myndbandi.