Fiskimenn fá ekki að setja förufólk í land

28.11.2018 - 05:30
In this photo taken on Friday, June 1, 2018 the rescue vessel Aquarius ship approaches the Pozzallo harbor, Southern Italy. Spain stepped up Monday, June 11, 2018 and offered to take in a rescue ship carrying more than 600 migrants after Italy and Malta
Leitar- og björgunarskipið Aquarius utan við höfnina í Pozzallo á Ítalíu, 1. júní. Ítalar og Maltverjar neituðu að taka við förufólkinu um borð. Sú saga er nú að endurtaka sig. Mynd: AP
Spænskt fiskiskip hefur hvorki komist lönd né strönd á Miðjarðarhafinu tæpa viku þar sem ekkert ríki hefur samþykkt að taka á móti tólf manns sem áhöfnin bjargaði af gúmmítuðru í síðustu viku. „Við höfum bara verið látnir sigla okkar sjó, við getum ekkert farið," sagði Pascual Dura, skipstjóri fleytunnar Nuestra Madre Loreto, í símtali við fréttamann AFP.

Hann og tólf manna áhöfn hans eru nú á stefnulausri siglingu um Miðjarðarhafið ásamt förumönnunum tólf frá Senegal, Níger, Súdan, Sómalíu og Eyptalandi, sem þeir björguðu af litlum gúmbáti undan ströndum Líbíu. Stjórnvöld á Möltu og Ítalíu hafa þverneitað að leyfa skipinu að leggjast að bryggju og hleypa farþegunum í land, og að sögn skipstjórans Dura vill spænska strandgæslan ekkert fyrir þá gera annað en að sigla með förumennina aftur til Líbíu.

Vill ekki flytja þá aftur til Líbíu

„Ef við förum til Líbíu er hætta á uppreisn um borð - þegar þeir heyra orðið Líbía, þá verða þeir afar taugaóstyrkir og æstir, það er erfitt að róa þá," segir skipstjórinn, sem raunar kærir sig ekkert um að sigla þessum óvæntu förunautum sínum aftur til Líbíu. „Við viljum ekki fara með þá til Líbíu. Nú þegar þeir eru komnir hingað viljum við ekki fara með þá aftur til staðarins sem þeir eru að flýja," segir Dura.

Förufólk frá Afríku sunnan Sahara og Suður-Asíu býr þúsundum saman við hörmulegar aðstæður í Líbíu, þar sem það sætir iðulega kúgun, ofbeldi, mansali og kynlífsþrælkun.

Utanríkisráðherra Spánar, Josep Borrell, hefur staðfest að yfirvöld á Ítalíu og Möltu neiti að hleypa skipinu til hafnar en segir ekkert neyðarástand ríkja þar um borð. Kafteinninn Dura bendir hins vegar á að kosturinn um borð endist varla lengur en sex eða sjö daga til viðbótar og að stormur sé í aðsigi.

Skipið er gert út frá Valencia, og hafa héraðsyfirvöld þar boðist til að taka við förumönnunum. Spænsk yfirvöld hafa enn ekki gefið grænt ljós á þá tilhögun. Það var líka héraðsstjórnin í Valencia sem bauðst til að skjóta skjólshúsi yfir þær 630 sálir sem bjargað var um borð í skipið Aquarius í sumar, og hvorki Ítalir né Maltverjar vildu hleypa í land. Þá heimiluðu spænsk stjórnvöld Aquariusi að leggjast að bryggju í Valencia, og var fólkinu síðan deilt niður á nokkur ríki Evrópusambandsins. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi