Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fiskeldi í Þorlákshöfn háð umhverfismati

12.12.2017 - 14:37
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Christopher Lund - Hafnarstjórn Þorlákshöfn
Fyrirhugað fiskeldi Tálkna ehf. við Þorlákshöfn er háð mati á umhverfisáhrifum. Þetta er niðurstaða Skipulagsstofnunar sem var birt í dag. Bæjarstjórn Ölfuss taldi ekki ástæðu til að framkvæmdin færi í umhverfismat. 

Fyrirtækið Tálkni ehf. hyggst reisa allt að 5.000 tonna laxeldi á lóð suðvestan þéttbýlisins í Þorlákshöfn. Framkvæmdin felur í sér uppbyggingu ýmissa mannvirkja, svo sem þjónustuhúss, sláturaðstöðu, fóðurgeymslu og eldiskers. Stöðin á að vera staðsett á milli starfandi seiða- og fiskeldisstöðva á svæðinu. 

Bæjarstjórn Ölfuss er hlynnt áformunum og bókaði í sumar að fyrirtækið hefði haft náið samráð við sveitarfélagið á öllum stigum undirbúnings. Þá séu aðstæður á staðnum kjörnar til fiskeldis, enda sé stutt til sjávar og rask vegna framkvæmdanna og ásýndaráhrif í lágmarki. Bæjarstjórn taldi ekki ástæðu til að fyrirhuguð framkvæmd færi í umhverfismat. Það er þó Skipulagsstofnun sem tekur ákvörðun um slíkt og hefur komist að annarri niðurstöðu. 

Skipulagsstofnun byggir ákvörðun sína á því að umfang fyrirhugaðs fiskeldis sé talsvert mikið og vatnstaka vegna starfseminnar veruleg. Þá telur stofnunin, með tilliti til staðsetningar stöðvarinnar, að eldi af þessari stærðargráðu kalli á nánari greiningu á áhrifum frárennslis, enda sé óvissa um magn næringarefna og úrgangs sem mun koma frá starfseminni. Jafnframt verði að leggja mat á samlegðaráhrif með öðrum seiða- og fiskeldisstöðvum í nágrenninu.

 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV