Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Finnst hann óvelkominn í eigin landi

06.02.2018 - 21:21
Eggert Einer Nielson segir að Íslendingurinn í honum verði ekki tekinn af honum, þótt hann fái ekki ríkisfang. Hann hefur ekki fengið að gerast íslenskur ríkisborgari, þrátt fyrir að vera fæddur á Íslandi og eiga íslenska móður.

Á förum

Eggert er á leið í kennslu í Menntaskólanum á Ísafirði en öðru hverju kennir hann í svokallaðri Fab-lab-smiðju skólans. Hann gæti þó verið á förum eftir að hafa haft fasta búsetu við Ísafjarðardjúp síðustu sjö ár. „Við erum örugglega á förum. Við virðumst ekki velkomin hér. Fólkið er prýðilegt en þegar kemur að stjórnvöldum þá er eins og vanti eitthvað uppá,“ segir Eggert Einer Nielson sem starfar meðal annars sem kennari.

Fæddist á Íslandi

Eggert taldi sig geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt vegna uppruna síns. „Það er fæðingarréttur minn, ég fæddist hér. Móðurættin mín er héðan. Ísland hefur ætíð kallað á mig. Eins og ég sagði er það fæðingarréttur minn.“ Þegar Eggert fæddist voru í gildi lög sem veittu Eggerti ríkisfang föður, sem var danskt. Þegar hann fluttist svo til Bandaríkjanna fékk hann bandarískt ríkisfang. Hann hélt þó böndum við Ísland þar til hann fluttist alfarið til landsins. 1982 var lögum um ríkisfang barna breytt og börn íslenskra mæðra fengu íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu. „Ég fæddist í Reykjavík, á Landspítalanum árið 1957 og bjó þar til ég var sjö ára á Íslandi.“

Lögin ekki afturvirk

Eggert sótti um ríkisborgararétt til Útlendingastofnunar, á síðasta ári, á þeim grundvelli að hafa átt íslenska móður en lögin frá 1982 eru ekki afturvirk og samkvæmt Útlendingastofnun fellur tilfelli Eggerts ekki undir undanþáguákvæði. 

Ergjandi að þurfa að endurnýja dvalarleyfið árlega

Eggert sækir nú árlega um dvalarleyfi og endurnýjun á dvalarleyfi - sem hann hefur fengið. „Það er mjög ergjandi að vera inn og út úr kerfinu. Dvalarleyfið rennur ætíð út í júlílok eða byrjun ágústs.“ Í ágúst rann dvalarleyfi Eggerts út og skráning hans færðist því til Bandaríkjanna. Lögmaður Eggerts reyndi þá, þó eftir að umsóknarfresti lauk, að sækja um ríkisborgararétt beint til Alþingis en umsóknin var ekki tekin fyrir. 

Vakti athygli á málinu á Facebook

Mál Eggerts hefur vakið mikla athygli eftir að félagi hans setti inn stöðuuppfærslu á Facebook í morgun. „Ég er Íslendingur, mér er það í blóð borið og í hjarta mínu er ég það. Það geta þeir ekki tekið frá mér, sama hvað.“ 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður